brjóstvörn sannleikans  

hvítt blogg


Heim Gamalt og gott Póstur
Hnakkus Vala Elísabet
Glöggið Raggi Mikki

23 júní 2005 :::
 
Plöggað af hugsjón...

Ég verð að benda lesendum mínum (þessum gríðarmörgu) á nýjustu snilldina í netheimum en hún heitir Audioscrobbler (www.audioscrobbler.com). Um er að ræða viðbót við alla helstu tónlistarspilara (WinAmp, Windows Media Player, iTunes) sem kortleggur tónlistarsmekk notandans og bendir honum á aðra notendur með svipaðan smekk og mögulega flytjendur sem gætu fallið að smekk hans. Eitt af því skemmtilega við þetta "samfélag" er að það er ekki á vegum plötuútgefenda og þar með er hægt að sjá hvaða lög og hljómsveitir eru raunverulega vinsælar á hverjum tíma. Ekki kemur á óvart að Coldplay er vinsælasta hljómsveitin, en kannski að Radiohead er í 2. sæti og Bítlarnir í 3. sæti... (Björk er í 58. sæti, tveimur sætum ofar en Bob Dylan)

Audioscrobbler er ókeypis og ekki haldið úti í gróðaskyni, þannig að ekki þarf að hafa neinar áhyggjur af því að upplýsingar um notendur og tónlistarsmekk verði seldar gelgreiddum markaðsfræðingum.. a.m.k. ekki enn sem komið er.

::: hent inn 21:37 :::


15 júní 2005 :::
 
Mislægur misskilningur

Mikið hefur verið rifist um skipulags- og samgöngumál undanfarið. Rifist er um hvort það eigi að bæta samgöngur úti á landi eða reisa fleiri mislæg gatnamót í Reykjavík. Hvort það eigi að hafa áfram flugvöll í miðbæ Reykjavíkur eða flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. Nýjasta útspilið er frá Sjálfstæðisflokknum, eyjabyggð og fleira skemmtilegt. Nú geri ég mér grein fyrir því að ég á ekki jafnmarga stuðningsmenn og Sjálfstæðisflokkurinn en ég ætla nú samt að leyfa mér að koma með smá tillögur sem sameina góðu hugmyndirnar en henda þeim slæmu út í hafsauga.

Fyrir það fyrsta þá eru mislæg gatnamót og hraðbrautir inni í miðri borg vond hugmynd. Þau þrengja að mannlífi og rífa sundur byggðina svo allir fá þá grillu í hausinn að þeir þurfi að keyra út um allt á einkabílnum, jafnvel stystu vegalengdir.. og þar með eykst bílaumferðin. Það er til fjöldinn allur af 300-400 þúsund manna borgum í Evrópu þar sem mislæg gatnamót fyrirfinnast ekki.

Þess vegna legg ég til að í staðinn verði áherslan lögð á tvær stofnbrautir til hliðar við byggðina: Sundabraut og Skerjafjarðarbraut. Tvær nýjar brautir sem stytta verulega leiðina milli ákveðinna hverfa og út úr bænum, og létta verulega á umferðaræðum eins og Miklubraut. Þannig verða mislæg gatnamót innan borgarmarkanna óþörf. Fyrir utan þetta mega menn alveg einbeita sér mín vegna að því að bæta vegakerfið úti á landi, en það ætti að leggja sérstaka áherslu næstu árin á örugga og góða vegi á suðvesturhorninu, til að fækka slysum.

Síðan á ríkið að taka sig til og styrkja almenningssamgöngur á Reykjavíkursvæðinu. Það þekkist varla í nágrannaríkjum okkar að sveitarfélögin séu ein látin standa straum af kostnaði við lestir og strætisvagna. Með góðu og þéttu strætókerfi væri hægt að spara heilan helling af peningum í framkvæmdir í þéttbýli. Þetta er einfalt reikningsdæmi - aukin umferð kallar á framkvæmdir til að gatnakerfið springi ekki. Umferð er alltaf að aukast, byggðin er að þenjast út og fólk keyrir meira og meira eitt í bíl. Með myndarlegu framlagi úr ríkissjóði (svipaða upphæð og ein mislæg gatnamót) væri hægt að hafa frítt í strætó í 1-2 ár, og strætó sem gengur með 10 mínútna millibili. Það eitt og sér myndi stórminnka umferð og gera allar frekari framkvæmdir óþarfar.

Það þarf að þétta byggðina í Reykjavík enn frekar. Það er mjög auðvelt að fá fólk til að trúa því að 25 þúsund manna byggð (eða bara einn háskóli) í Vatnsmýri sprengi gatnakerfið, en reynslan sýnir að þétting byggðar leiðir til þess að umferð pr. íbúa minnkar verulega. Nokkur ný úthverfi með samtals 25 þúsund manns sprengja hins vegar gatnakerfið nema til komi breiðari götur og fleiri mislæg gatnamót. Þetta er vítahringur.

Að lokum vil ég svo leggja til að ríkið selji Vatnsmýrina og noti tekjurnar af sölunni til að byggja nýjan innanlandsflugvöll á Geldinganesi. Geldinganes er einstaklega vel staðsett fyrir flugvöll, um 10 mínútur frá miðbænum eftir að Sundabraut er komin og ca. 40 mínútur frá Borgarnesi, Selfossi og Keflavík. Önnur hugmynd gæti verið að nota peninginn til að byggja Skerjafjarðarbraut og jarðgöng út í Straumsvík strax og stytta þannig ferðatímann til Keflavíkur úr miðri Reykjavík í ca. 25 mínútur. Þannig væri hægt að reka einn stóran og öflugan alþjóðaflugvöll fyrir allt landið - fólk af landsbyggðinni kæmist mun auðveldar til útlanda og tiltölulega auðveldlega til Reykjavíkur. Störfum á Suðurnesjum myndi fjölga, til móts við minnkandi umsvif varnarliðsins. Og bara allir sáttir!

::: hent inn 10:20 :::




Powered by Blogger