brjóstvörn sannleikans  

hvítt blogg


Heim Gamalt og gott Póstur
Hnakkus Vala Elísabet
Glöggið Raggi Mikki

23 maí 2005 :::
 

Evrópa vs. Bandaríkin

Hinn vaski blaða- og frjálshyggjumaður Ólafur Teitur Guðnason hefur nýverið gefið út bók þar sem "hið sanna og rétta" í ýmsum málum kemur fram og íslenskir fjölmiðlar eru gagnrýndir harðlega. Þessi boðberi sannleikans skrifar athyglisverðan pistil í Viðskiptablaðið þann 13. maí. Pistillinn er skemmtilegt innlegg í umræðu sem er jafnan mjög skemmtileg: Hvort hefur fólk það betra í Evrópu eða Bandaríkjunum?

Ekki kemur niðurstaða Ólafs Teits á óvart en hún er sú að Norðurlöndin séu fátækustu ríki Vestur-Evrópu, og að Bandaríkjamenn hafi það almennt miklu betra en Evrópumenn. Þarna eru þá væntanlega komin skotheld rök fyrir því að fara bandarísku frjálshyggjuleiðina sem unga sjálfstæðismenn dreymir um. Lækka skatta, skera velferðarkerfið niður við nögl, einkavæða heilbrigðiskerfið, rukka milljónir í skólagjöld í háskólum, stytta fæðingarorlof í sex vikur og afnema lögbundið sumarfrí. Ekki í fyrsta skipti sem hægri mennhalda fram yfirburðum Bandaríkjanna á öllum sviðum mannlegrar tilveru, en standast þessar kenningar?

Ólafur Teitur vísar í grein blaðamannsins Bruce Bawer, sem er búsettur í Osló. Fullyrðingar Bawers eru eftirfarandi:
1) Miðað við landsframleiðslu væru gömlu Evrópusambandsríkin 15 (fyrir utan Lúxemborg) meðal fátækustu ríkja Bandaríkjanna.
2) Miðað við meðallaun eftir skatta, leiðrétt gagnvart verðlagi þá hefur meðal-Bandaríkjamaður um 30-50% meira milli handanna en meðal-Evrópumaður.
3) Noregur er í raun fátækt land - almenningsstofnanir eru margar í niðurníðslu, bílaflotinn er ekki upp á marga fiska og almennt launafólk tekur nesti með sér í vinnuna.

Fyrsta fullyrðingin er í rauninni sú eina sem ekki er hægt að hrekja. Landsframleiðsla í Bandaríkjunum er mun hærri en meðallandsframleiðsla í Evrópu. En höfundur sleppir vísvitandi nokkrum mikilvægum staðreyndum. Sú mikilvægasta er auðvitað sú að landsframleiðsla er alls ekki góður mælikvarði á almenna velmegun, hvað þá lífsgæði. Mörg lífsgæði er erfitt að meta í peningum og aukin sóun, bruðl og neysla (og sjúkdómsvæðing og mengun líka, en það er önnur saga..) telst alltaf sem bónus þegar landsframleiðsla er annars vegar. Sem dæmi má nefna að ónýtir þjóðvegir stuðla að hækkun landsframleiðslu vegna þess að fleiri bílar eyðileggjast. Heimsmet Ameríkana í lyfjaáti telst þeim einnig til tekna. Þó Bawer níði skóinn af Norðurlöndunum seinna þá ákveður hann að bera ekki landsframleiðslu Íslands og Noregs saman við fylki Bandaríkjanna, og heldur ekki Sviss, þó svo að efnahagslegur rammi og þjóðskipulag þessara landa sé nokkurn veginn sá sami og hjá ESB-15. Af hverju Noregur fær ekki að vera með í þessum hluta rannsóknarinnar veit ég ekki. Kannski af því að Noregur er ríkasta land í heimi þegar allt er tekið með í reikninginn?

Önnur fullyrðingin, sú með laun eftir skatta, er í besta falli villandi. Með því að taka meðallaun eftir skatta og bera þau saman með tilliti til verðlags fær höfundur það út að Danmörk sé fátækasta land Evrópu og Portúgal það ríkasta, merkilegt nokk. Ekki tekur höfundur með í reikninginn prívatútgjöld Ameríkubúa til heilbrigðis- og menntamála, sem velta á þúsundum dollara á ári, né heldur tilfærslur sem einstaklingar fá frá hinu opinbera í löndum eins og Danmörku. Einnig gleymist að hluti Evrópubúa þarf ekki að eiga bíl vegna góðra almenningssamgangna, og þessi hluti leggur þar með minna til landsframleiðslunnar.

Þriðja fullyrðingin er auðvitað fáránleg og varla orðum á hana eyðandi. Allir sem hafa komið til Noregs vita að Norðmenn eru einfaldlega praktískir, nægjusamir og hagsýnir. Dæmigerður Norðmaður á nokkrar milljónir í bankanum og skuldar bara af íbúðinni, og kannski hyttunni sem hann á uppi í fjalli, og jú mikið rétt, tekur með sér nesti í vinnuna. Sumum Íslendingum finnst þetta vera nánasarháttur, enda sparsemi ekki hluti af íslensku þjóðarsálinni enn sem komið er. Þetta viðhorf Norðmanna endurspeglast hins vegar líka í starfsemi hins opinbera - þó að norska ríkið eigi hundruð milljarða í sjóðum og skuldi ekki neitt (algjör andstæða bandaríska ríkisins...) þá réttlætir það ekki fjáraustur í alls kyns lúxus.

Eigum við að halda áfram? Á Norðurlöndum er meðalvinnuvikan í kringum 38 tímar en í Bandaríkjunum vinna flestir meira en 45 tíma. Norðurlandabúar eru í sumarfríi fimm til sex vikur á ári en Bandaríkjamenn fá flestir tvær vikur. Í Bandaríkjunum er krónískur viðskiptahalli, ríkið er eitt hið skuldsettasta í veröldinni og raunverulegt atvinnuleysi slagar hátt í tveggja stafa tölu, enda eru langtímaatvinnulausir ekki taldir með vestan hafs. Engin þjóð á Vesturlöndum skuldar meira í neyslulánum, býr við meira áreiti frá auglýsendum, eyðir meiri tíma í bílnum, elur af sér fleiri offitusjúklinga, mengar meira, fremur fleiri morð og eyðir meiri peningum í hernað en Bandaríkjamenn. Það getur vel verið að menn eins og Ólafur Teitur Guðnason vilji frekar stefna í þessa átt en flestir sem ég þekki eru sáttari við norræna módelið.

Sannleikurinn er sá að almenningur hefur það ansi gott bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Íslendingar og Norðmenn gætu upp til hópa fengið sér hvítvínsglas með hádegismatnum daglega en kjósa bara að gera það ekki. Með tilliti til þess og þeirrar staðreyndar að í hverri úttektinni á fætur annarri koma Norðurlönd út sem einhver samkeppnishæfustu, tæknivæddustu, ríkustu og best menntuðu þjóðfélög heims, hljótum við hin sem teljum Ísland eiga heima í Evrópu að gefa lítið fyrir meintan sannleik Ólafs Teits Guðnasonar.



::: hent inn 15:26 :::


20 maí 2005 :::
 
Eurovision

Voðalegur æsingur er þetta út af Eurovision. Það nýjasta er að það á að "skoða þátttöku Íslands í keppninni" hjá RÚV, lesist: það kemur til greina fara í fýlu og hætta að taka þátt. Það væri synd því Eurovision er einn af skemmtilegustu vorboðunum, og það segi ég og skrifa þótt ég sé gagnkynhneigður.

Það væri kannski ráð að líta aðeins í eigin barm. Flutningur Selmu var bara ekki að virka - hún gerði hlutina alveg rétt og stóð sig vel en ég er ekki alveg viss um að hún hafi verið að gera réttu hlutina. Veit ekki alveg hvort það er málið að vera í hnésíðum rauðum gammosíum (sem þurfti að sækja efnið í alla leið til London.. hlýtur að hafa verið gott í þessu) og vera með ballettdansara sem liggja í gólfinu hálft lagið og syngja (misvel) bakraddirnar um leið. Lagið var ágætis popplag sem þó þarf fleiri en eina hlustun og flutningurinn var tilgerðarlegur og náði engan veginn til mín eða annarra sem ég hef heyrt frá.

Það gengur heldur ekki að segja að þetta sé austantjaldslöndunum að kenna.. Noregur, Danmörk og Sviss komust áfram, með því að ná til áhorfenda. Ég ætla að horfa á Eurovision á morgun og vona að einhver nenni að horfa með mér. Heja Norge!

::: hent inn 18:31 :::


01 maí 2005 :::
 
Fjármál stjórnmálaflokka

Það er kominn tími á lög um fjármál stjórnmálaflokka. Einfaldar reglur sem flest ef ekki öll lýðræðisríki (nema Ísland) hafa komið á þar sem kveðið er á um að framlög til stjórnmálaflokks yfir ákveðinni upphæð eigi að gefa upp. Hvað er svona flókið við þetta? Alltaf þegar það er byrjað að tala um þetta þá byrjar Flokkurinn með sömu biluðu plötuna:

"og nú hva af hverju opnar Samfylkingin ekki bókhaldið sitt! hefur hún eitthvað að fela!"

Af hverju bendir enginn (og þessu er auðvitað sérstaklega beint til Samfylkingarinnar) ekki á það að þetta eru ekki rök í málinu heldur tilraun til að beina umræðunni yfir í eitthvað allt annað? Í rauninni finnst mér notkun á þessum "rökum" benda eindregið til þess að Flokkurinn hafi eitthvað að fela.

::: hent inn 16:10 :::




Powered by Blogger