brjóstvörn sannleikans  

hvítt blogg


Heim Gamalt og gott Póstur
Hnakkus Vala Elísabet
Glöggið Raggi Mikki

13 apríl 2005 :::
 
Friðhelgi lífsins og flokkshagsmunir

Það er eflaust orðið fullseint að minnast á mál Terri Schiavo en ég ætla nú samt að gera það. Kristnu íhaldsmennirnir sem vildu ólmir halda lífinu í þessari vesalings konu (blessuð sé minning hennar) notuðu þau rök að lífið væri heilagt. Þessir sömu kristnu íhaldsmenn berjast síðan á hæl og hnakka gegn því að fátækt fólk fái heilbrigðisþjónustu. Hvað ætli margir Bandaríkjamenn hafi dáið vegna þess að þeir fengu ekki rétta sjúkdómsgreiningu eða meðferð vegna peningaskorts? Ekki nóg með það, heldur er þetta sama liðið og vill að ríkisvaldið geti tekið 17 ára þroskahefta einstaklinga af lífi. Ótrúlegt lið.

Sjálfstæðismenn eru núna lúmskt að reka áróður fyrir því að Háskólinn í Reykjavík verði í Garðabæ í framtíðinni. Atli Rafn Björnsson, fyrrum skólabróðir minn úr HR og fyrrum formaður Heimdallar (en það mun vera félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík) skrifar grein í Moggann 30. mars sl. þar sem hann finnur Vatnsmýrarlóðinni allt til foráttu og tíkin.is borgaði fyrir könnun með mjög leiðandi spurningu þar sem niðurstaðan var sú að HR ætti alls ekki að fá pláss í Vatnsmýrinni nálægt Nauthólsvík. Ein helstu rök Sjálfstæðisflokksins fyrir því að við ættum að kjósa hann í síðustu borgarstjórnarkosningum voru þau að fólk og fyrirtæki væru að flýja úr Reykjavík. Ætli það séu hagsmunir HR og almennings á Reykjavíkursvæðinu sem flokkurinn hefur í huga þegar hann rekur áróður fyrir flutningi skólans til Garðabæjar?

::: hent inn 19:19 :::


09 apríl 2005 :::
 
Frjáls til að tyggja

Meðlimir Frjálshyggjufélagsins svokallaða eru mjög uppteknir af ágæti þeirra þumalputtareglu sem þeir lifa eftir, þ.e. að ef afskipti ríkisins af einstaklingunum séu engin þá komist á einhvers konar draumaríki, jafnvel himnaríki. Svo uppteknir eru þeir að þeir virðast þefa uppi alla gagnrýni á frjálshyggju á netinu, jafnvel á mínu lítið lesna bloggi, og nýjasti pistillinn minn virðist heldur betur hafa stuðað þá því þeir hafa gert út formann sinn til að skrifa heillangt svar við honum á bloggi sínu. Að vísu þurfti að benda mér á svarið og til mín er vísað sem "einhvers vinstrimanns".

Ég lít reyndar ekki á mig sem vinstrimann. Ég myndi frekar kalla mig pólitískan efahyggjumann. Ég efast mjög um að það sé hægt að heimfæra einfaldar kennisetningar og þumalputtareglur upp á tilveruna, þó að það sé mjög freistandi að halda að það geti átt við. T.d. var þumalputtaregla kommúnismans "enginn má eiga neitt, allir eiga allt jafnt". Við sáum til hvers sú þumalputtaregla leiddi og frjálshyggjumenn eru duglegir við að benda á það. Kennisetning frjálshyggjunnar er hins vegar "einstaklingar eiga að fá að gera það sem þeim sýnist svo lengi sem þeir skaða ekki aðra". Hljómar fallega eins og kommúnisminn. En má ég sem einstaklingur þá eiga, kaupa og selja kjarnorkuvopn, svo lengi sem ég nota þau ekki? Er Frjálshyggjufélagið á þeirri skoðun?

Annað sem frjálshyggjumenn eiga sameiginlegt með kommúnistum er að kenna "hinu illa", í þeirra tilfelli ríkisvaldinu, um allt það slæma sem sprettur af markaðsfrelsinu. Dæmi: Ef börn eru seld í þrælkun, þá er það vegna þess að ríkið neyðir fólk til að ganga í verkalýðsfélög, sem veldur atvinnuleysi. Það var heldur aldrei kommúnismanum að kenna þegar hann virkaði ekki, heldur borgarastéttinni og heimskapítalismanum.

Ég nenni ekki að svara Gunnlaugi Jónssyni lið fyrir lið, enda tæki það mig hálfan vinnudag, og ég er hættur að nenna að standa í þrætum við þrjóska einstaklinga með ranghugmyndir. Ég hef einfaldlega aðra sýn á lífið og tilveruna en öfgafrjálshyggjumenn, ekki síst á frelsið (sem ég tel standa fyrir eitthvað víðtækara og dýpra en bara frelsi frá afskiptum opinberra aðila af eignarréttinum). Gunnlaugur kallar mig vinstrimann, og gengur út frá því að ég, höfundur pistilsins, sé á móti frjálsum markaði og vilji hann feigan. Fátt er fjær lagi enda byggja þau þjóðfélög sem eru mér mest að skapi að miklu leyti á frjálsum markaði. Eða svo ég orði það skýrar, hæfilegri blöndu af markaðsviðskiptum og ríkisafskiptum.

En ef við tökum eitt dæmi sem ég þekki vel til, lyf, þá heldur Gunnlaugur að frjáls markaður nægi til að veita lyfjafyrirtækjum aðhald. Lyfjafyrirtæki eru reyndar besta dæmið um það að frjáls markaður nýtist ekki sem skyldi án víðtækra afskipta opinberra aðila. Lyfjafyrirtæki hafa orðið uppvís að því að falsa niðurstöður rannsókna, setja á markað lyf sem virka ekki eins og þau eiga að virka en græða samt milljarða dollara á þeim. Í löndum þar sem brotalamir eru í opinberu eftirliti með lyfjum eru 20-80% lyfja hreinlega fölsuð, og einstaklingar sem fá heilahimnubólgu deyja vegna þess að "sýklalyfin" þeirra á sjúkrahúsunum eru saltvatn!

Enginn iðnaður græðir jafnmikið og lyfjaiðnaðurinn en samt vill Gunnlaugur stofna öryggi sjúklinga í hættu með því að láta ríkið hætta að vera síðasti "filterinn" fyrir lyf sem fara á markað. 5-10% lyfja sem sótt er um markaðsleyfi fyrir eru dregin til baka áður en samþykki fæst. Ef ekkert faglegt mat færi fram á vegum opinberra aðila færu þessi lyf á markað með skelfilegum afleiðingum fyrir alla aðra en lyfjafyrirtækin, sem eyða milljörðum í að slá ryki í augu almennings og heilbrigðisstarfsmanna. Faglegt mat á lyfjum er í raun bara tæki til að koma í veg fyrir að lyfjafyrirtækin skaði einstaklinga. Það er of seint að fara í mál út af röngum upplýsingum um lyf ef barnið manns fæðist vanskapað. Lyfjamarkaðurinn er því gott dæmi um markað sem er undir stífu eftirliti ríkisins en virkar samt ágætlega í grundvallaratriðum. Enginn kommnúnismi þar á ferð.

Reyndar er það ekki bara gróðahvati sem skilar okkur nýsköpun í formi nýrra lyfja. Helmingur allra frumrannsókna á lyfjum eru "non-profit" og á vegum háskóla, opinberra aðila eða félagasamtaka. Auk þess er megnið af gróða lyfjafyrirtækja til komið vegna ríkisvaldsaðgerða sem kallast einkaleyfi. Lyfjafyrirtæki eyða meiru í auglýsingar og markaðssetningu en rannsóknir og þróun. Lyfjafyrirtæki setja mun fleiri lyf á markað við velmegunarsjúkdómum og sjúkdómum sem þau hafa sjálf blásið upp eða jafnvel búið til (t.d. stinningarvandamálum) heldur en sjúkdómum sem eru hættulegir eða banvænir. Nú er ég búinn að tína til ýmislegt á lyfjaiðnaðinn og niðurstaða Frjálshyggjufélagsins er eflaust sú að ástandið sé eins og það er vegna þess að ríkisvaldið skekki markaðinn. Ef afskipti þess væru afnumin lagaðist allt af sjálfu sér, eða ekki, og ef ekki þá er amk. réttlætinu fullnægt þó að "réttlætið" leiði af sér eymd, volæði og dauðsföll. Mjög fyrirsjáanlegur þankagangur.

Að lokum vil ég skora á Frjálshyggjufélagið að bjóða fram í næstu sveitarstjórnarkosningum og láta á það reyna hversu stór hluti þjóðarinnar vill selja holræsin einkaaðilum.

::: hent inn 18:06 :::




Powered by Blogger