Nonni er frjálshyggjumaður. Hann vaknar kl. 7 um morguninn og hellir upp á morgunkaffið. Hann fyllir kaffivélina af hreinu drykkjarvatni af því að einhver ríkisafskiptasinni setti það í hegningarlög að það væri ólöglegt að menga drykkjarvatn. Hann tekur lyfin sín með morgunmatnum, og hann getur treyst því að þau séu örugg og virki alltaf rétt vegna þess að einhver vinstri fasisti kom á fót lyfjastofnunum til að tryggja það að verkun lyfsins, gæði og öryggi séu í samræmi við það sem er auglýst. Nonni borgar bara 1.200 krónur fyrir lyfjapakkningu með mánaðarskammti en ekki 12.000 vegna þess að einhver ríkisafskiptasinni barðist fyrir því að Tryggingastofnun tæki þátt í lyfjakostnaði sjúklinga.
Nonni fer í sturtu og setur sjampó í hárið. Sjampóflaskan er merkt með hverju einasta innihaldsefni, og öll hafa þau verið prófuð vegna þess að einhver forsjárhyggjumaður ákvað að hann hefði rétt til að vita hvað hann væri að setja á líkama sinn. Nonni klæðir sig, fer út og andar að sér hreinu lofti af því að einhver fóstrufasisti í útlöndum barðist fyrir því að setja lög til að takmarka útblástur frá bílum, skipum og verksmiðjum.
Nonni stimplar sig inn á vinnustaðnum sínum. Hann er í góðri vinnu og fær góð laun, launað sumarfrí, veikindadaga, hádegismat og yfirvinnuna sérstaklega borgaða af því að einhverjir kommúnistar helguðu líf sitt því að berjast fyrir starfskjörum hans. Vinnuveitandi Nonna myndi hugsanlega breyta þessum skilmálum ef starfmenn ættu ekki möguleikann á að kæra hann eða tala við trúnaðarmann verkalýðsfélagsins. Ef Nonni slasast í vinnunni, missir geðheilsuna eða bara missir vinnuna þá fær hann bætur frá ríkinu vegna þess að einhver vinstri vitleysingur var þeirrar skoðunar að hann ætti það engan veginn skilið að missa heimili sitt út af tímabundnum mótbyr.
Í hádeginu fer Nonni í bankann og borgar reikninga. Millifærslur Nonna eru verndaðar með lögum um greiðslufyrirmæli og af Fjármálaeftirlitinu vegna þess að einhver allaballi taldi rétt að verja peninga Nonna fyrir óheiðarlegum bankamönnum sem sums staðar hafa lagt bankakerfi heilu ríkjanna í rúst. Nonni þarf að borga af ríkisniðurgreidda námsláninu sínu vegna þess að einhver vinstrimaður ákvað að bæði Nonni og ríkið yrðu betur sett ef Nonni gæti sótt sér menntun og þénað meiri peninga.
Eftir vinnu fer Nonni að heimsækja pabba sinn, sem er bóndi á Suðurlandi. Vegurinn sem hann keyrir eftir, rafmagnið, hitalögnin, vatnslögnin, símalínan og sjónvarpssendirinn í sveitinni hefði aldrei verið komið á nema af því að einhver sósíalisti greip inn í gangverk markaðarins og krafðist þess að dreifbýlið fengi sömu grunnþjónustu og þéttbýlið. Hann er ánægður að sjá pabba sinn, sem lifir á ellilífeyri frá ríkinu og greiðslum úr Lífeyrissjóði bænda vegna þess að einhver velferðarkrati tryggði að Nonni þyrfti ekki að framfleyta honum, heldur gæti pabbi hans framfleytt sér sjálfur burtséð frá því hvernig aðstæður voru á meðan hann var á vinnumarkaðnum.
Þegar Nonni kemur heim kveikir hann á tölvunni sinni og rúntar um vefsíður frjálshyggjumanna, sem tala um minna ríkisvald, lægri skatta, færri reglur og einkavæðingu sem lausn á öllum vandamálum heimsins. Nonni er líka alveg sammála - "við þurfum ekki þetta ofvaxna ríkisvald til að skipta sér af okkur, ég hef unnið fyrir öllu mínu sjálfur og mér finnst að allir eigi að taka fulla ábyrgð á sjálfum sér, alveg eins og ÉG."
(Þessi pistill er þýddur og staðfærður. Nöfnum hefur verið breytt.)