brjóstvörn sannleikans  

hvítt blogg


Heim Gamalt og gott Póstur
Hnakkus Vala Elísabet
Glöggið Raggi Mikki

13 janúar 2005 :::
 
Önnur hlið málsins

Hnakkus benti mér á merkilegt bréf sem bandarískur hermaður í Írak sendi David Duke, leiðtoga bandarískra þjóðernissinna. Þessi hermaður er enginn friðarsinni en honum ofbauð ýmislegt sem hann var látinn gera. Gefum honum orðið (í þýðingu undirritaðs..) :

"Við gerum miklu verri hluti en þið sáuð á myndbandinu. Þegar við komum í íbúðarhús í Fallujah, öskruðum við á fólkið að koma sér út. Yfirleitt gátum við ekki sagt þeim það á arabísku vegna skorts á túlkum, og þetta fólk veit ekki hvað "come out" þýðir á ensku - ekki frekar en þið mynduð skilja það ef það yrði sagt á arabísku.

Fullt af fólki var of hrætt til að fara úr húsi. En eftir að við aðvöruðum það, þá fórum við inn. Veistu hvernig? Við fylltum bygginguna og hvern einasta glugga af vélbyssukúlum, og síðan hentum við oft inn handsprengju. Ef einhverjir óbreyttir borgarar voru í byggingunni dóu þeir eða særðust. Á einni viku sá ég sjálfur a.m.k. hundrað lík í brunnum og sundurskotnum íbúðum, og ég sá bara örlítið brot af Fallujah. Og hvað gerðum við við hina særðu? Ekki neitt. Við fórum bara yfir í næstu byggingu - við erum hermenn, ekki sjúkraliðar, og það voru engir sjúkraliðar á eftir okkur. Ég held að hugsunarhátturinn sé sá að það sé betra að særðir óvinir deyi svo þeir geti ekki barist við okkur meir."

En hvað um það. Eflaust eru nú góðar og gildar ástæður fyrir þessu öllu, t.d. gjöreyðingarvopn eða tengsl Saddams Hussein við Al Kaída. Þeir sem vilja kynna sér hina hlið málsins geta skellt sér á myndina Fahrenhype 9/11 í kvöld í Valhöll, í boði Sambands ungra sjálfstæðismanna!


::: hent inn 19:46 :::


11 janúar 2005 :::
 

Tími og peningar

Það virðist vera nokkuð gild (ekki endilega algild) regla að annaðhvort hefur fólk tíma eða peninga. Ef við tökum jólagjafir sem dæmi þá gefur fólk sem á engan tíma, en syndir í peningum, gjarnan bíla í jólagjöf. Hinir sem eiga engan pening en nægan frítíma búa sjálfir til flestar jólagjafirnar eða láta sér detta eitthvað ódýrt í hug sem gleður eða vekur kátínu. Háskólanemar og listamenn eiga fullt af tíma en engan pening. Læknar og forstjórar eiga fullt af peningum en engan tíma fyrir eitt né neitt.

Hvort ætli sé betra að eiga nóg af tíma eða nóg af peningum? Ef við tökum nokkur dæmi úr daglega lífinu þá virðist það almennt koma betur út að eiga tíma. Börn vilja frekar að foreldrar eyði tíma með þeim heldur en að þeir kaupi handa þeim drasl (þótt þau haldi stundum annað). Það er betra að hafa tíma til að stunda líkamsrækt og laga sér hollan mat heldur en peninga til að eyða í ruslfæði og líkamsræktarkort sem maður notar aldrei af því maður hefur aldrei tíma. Svo er líka betra að eiga tíma til að eyða með vinum sínum og sinna áhugamálunum heldur en að eiga pening til að kaupa sér óþarfa fullorðnisleikföng sem maður hefur aldrei tíma til að nota.

Verst er þó örugglega að eiga aldrei pening og neyðast til að vinna myrkranna á milli fyrir skuldum, út af drasli sem maður hélt að maður þyrfti og keypti út á lán. Niðurstaða mín er altént sú að peningar, og það sem þeir geta keypt, eru almennt frekar ofmetið fyrirbæri.



::: hent inn 13:54 :::




Powered by Blogger