Ég verð að benda lesendum mínum (þessum gríðarmörgu) á nýjustu snilldina í netheimum en hún heitir Audioscrobbler (www.audioscrobbler.com). Um er að ræða viðbót við alla helstu tónlistarspilara (WinAmp, Windows Media Player, iTunes) sem kortleggur tónlistarsmekk notandans og bendir honum á aðra notendur með svipaðan smekk og mögulega flytjendur sem gætu fallið að smekk hans. Eitt af því skemmtilega við þetta "samfélag" er að það er ekki á vegum plötuútgefenda og þar með er hægt að sjá hvaða lög og hljómsveitir eru raunverulega vinsælar á hverjum tíma. Ekki kemur á óvart að Coldplay er vinsælasta hljómsveitin, en kannski að Radiohead er í 2. sæti og Bítlarnir í 3. sæti... (Björk er í 58. sæti, tveimur sætum ofar en Bob Dylan)
Audioscrobbler er ókeypis og ekki haldið úti í gróðaskyni, þannig að ekki þarf að hafa neinar áhyggjur af því að upplýsingar um notendur og tónlistarsmekk verði seldar gelgreiddum markaðsfræðingum.. a.m.k. ekki enn sem komið er.
Mikið hefur verið rifist um skipulags- og samgöngumál undanfarið. Rifist er um hvort það eigi að bæta samgöngur úti á landi eða reisa fleiri mislæg gatnamót í Reykjavík. Hvort það eigi að hafa áfram flugvöll í miðbæ Reykjavíkur eða flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. Nýjasta útspilið er frá Sjálfstæðisflokknum, eyjabyggð og fleira skemmtilegt. Nú geri ég mér grein fyrir því að ég á ekki jafnmarga stuðningsmenn og Sjálfstæðisflokkurinn en ég ætla nú samt að leyfa mér að koma með smá tillögur sem sameina góðu hugmyndirnar en henda þeim slæmu út í hafsauga.
Fyrir það fyrsta þá eru mislæg gatnamót og hraðbrautir inni í miðri borg vond hugmynd. Þau þrengja að mannlífi og rífa sundur byggðina svo allir fá þá grillu í hausinn að þeir þurfi að keyra út um allt á einkabílnum, jafnvel stystu vegalengdir.. og þar með eykst bílaumferðin. Það er til fjöldinn allur af 300-400 þúsund manna borgum í Evrópu þar sem mislæg gatnamót fyrirfinnast ekki.
Þess vegna legg ég til að í staðinn verði áherslan lögð á tvær stofnbrautir til hliðar við byggðina: Sundabraut og Skerjafjarðarbraut. Tvær nýjar brautir sem stytta verulega leiðina milli ákveðinna hverfa og út úr bænum, og létta verulega á umferðaræðum eins og Miklubraut. Þannig verða mislæg gatnamót innan borgarmarkanna óþörf. Fyrir utan þetta mega menn alveg einbeita sér mín vegna að því að bæta vegakerfið úti á landi, en það ætti að leggja sérstaka áherslu næstu árin á örugga og góða vegi á suðvesturhorninu, til að fækka slysum.
Síðan á ríkið að taka sig til og styrkja almenningssamgöngur á Reykjavíkursvæðinu. Það þekkist varla í nágrannaríkjum okkar að sveitarfélögin séu ein látin standa straum af kostnaði við lestir og strætisvagna. Með góðu og þéttu strætókerfi væri hægt að spara heilan helling af peningum í framkvæmdir í þéttbýli. Þetta er einfalt reikningsdæmi - aukin umferð kallar á framkvæmdir til að gatnakerfið springi ekki. Umferð er alltaf að aukast, byggðin er að þenjast út og fólk keyrir meira og meira eitt í bíl. Með myndarlegu framlagi úr ríkissjóði (svipaða upphæð og ein mislæg gatnamót) væri hægt að hafa frítt í strætó í 1-2 ár, og strætó sem gengur með 10 mínútna millibili. Það eitt og sér myndi stórminnka umferð og gera allar frekari framkvæmdir óþarfar.
Það þarf að þétta byggðina í Reykjavík enn frekar. Það er mjög auðvelt að fá fólk til að trúa því að 25 þúsund manna byggð (eða bara einn háskóli) í Vatnsmýri sprengi gatnakerfið, en reynslan sýnir að þétting byggðar leiðir til þess að umferð pr. íbúa minnkar verulega. Nokkur ný úthverfi með samtals 25 þúsund manns sprengja hins vegar gatnakerfið nema til komi breiðari götur og fleiri mislæg gatnamót. Þetta er vítahringur.
Að lokum vil ég svo leggja til að ríkið selji Vatnsmýrina og noti tekjurnar af sölunni til að byggja nýjan innanlandsflugvöll á Geldinganesi. Geldinganes er einstaklega vel staðsett fyrir flugvöll, um 10 mínútur frá miðbænum eftir að Sundabraut er komin og ca. 40 mínútur frá Borgarnesi, Selfossi og Keflavík. Önnur hugmynd gæti verið að nota peninginn til að byggja Skerjafjarðarbraut og jarðgöng út í Straumsvík strax og stytta þannig ferðatímann til Keflavíkur úr miðri Reykjavík í ca. 25 mínútur. Þannig væri hægt að reka einn stóran og öflugan alþjóðaflugvöll fyrir allt landið - fólk af landsbyggðinni kæmist mun auðveldar til útlanda og tiltölulega auðveldlega til Reykjavíkur. Störfum á Suðurnesjum myndi fjölga, til móts við minnkandi umsvif varnarliðsins. Og bara allir sáttir!
Hinn vaski blaða- og frjálshyggjumaður Ólafur Teitur Guðnason hefur nýverið gefið út bók þar sem "hið sanna og rétta" í ýmsum málum kemur fram og íslenskir fjölmiðlar eru gagnrýndir harðlega. Þessi boðberi sannleikans skrifar athyglisverðan pistil í Viðskiptablaðið þann 13. maí. Pistillinn er skemmtilegt innlegg í umræðu sem er jafnan mjög skemmtileg: Hvort hefur fólk það betra í Evrópu eða Bandaríkjunum?
Ekki kemur niðurstaða Ólafs Teits á óvart en hún er sú að Norðurlöndin séu fátækustu ríki Vestur-Evrópu, og að Bandaríkjamenn hafi það almennt miklu betra en Evrópumenn. Þarna eru þá væntanlega komin skotheld rök fyrir því að fara bandarísku frjálshyggjuleiðina sem unga sjálfstæðismenn dreymir um. Lækka skatta, skera velferðarkerfið niður við nögl, einkavæða heilbrigðiskerfið, rukka milljónir í skólagjöld í háskólum, stytta fæðingarorlof í sex vikur og afnema lögbundið sumarfrí. Ekki í fyrsta skipti sem hægri mennhalda fram yfirburðum Bandaríkjanna á öllum sviðum mannlegrar tilveru, en standast þessar kenningar?
Ólafur Teitur vísar í grein blaðamannsins Bruce Bawer, sem er búsettur í Osló. Fullyrðingar Bawers eru eftirfarandi: 1) Miðað við landsframleiðslu væru gömlu Evrópusambandsríkin 15 (fyrir utan Lúxemborg) meðal fátækustu ríkja Bandaríkjanna. 2) Miðað við meðallaun eftir skatta, leiðrétt gagnvart verðlagi þá hefur meðal-Bandaríkjamaður um 30-50% meira milli handanna en meðal-Evrópumaður. 3) Noregur er í raun fátækt land - almenningsstofnanir eru margar í niðurníðslu, bílaflotinn er ekki upp á marga fiska og almennt launafólk tekur nesti með sér í vinnuna.
Fyrsta fullyrðingin er í rauninni sú eina sem ekki er hægt að hrekja. Landsframleiðsla í Bandaríkjunum er mun hærri en meðallandsframleiðsla í Evrópu. En höfundur sleppir vísvitandi nokkrum mikilvægum staðreyndum. Sú mikilvægasta er auðvitað sú að landsframleiðsla er alls ekki góður mælikvarði á almenna velmegun, hvað þá lífsgæði. Mörg lífsgæði er erfitt að meta í peningum og aukin sóun, bruðl og neysla (og sjúkdómsvæðing og mengun líka, en það er önnur saga..) telst alltaf sem bónus þegar landsframleiðsla er annars vegar. Sem dæmi má nefna að ónýtir þjóðvegir stuðla að hækkun landsframleiðslu vegna þess að fleiri bílar eyðileggjast. Heimsmet Ameríkana í lyfjaáti telst þeim einnig til tekna. Þó Bawer níði skóinn af Norðurlöndunum seinna þá ákveður hann að bera ekki landsframleiðslu Íslands og Noregs saman við fylki Bandaríkjanna, og heldur ekki Sviss, þó svo að efnahagslegur rammi og þjóðskipulag þessara landa sé nokkurn veginn sá sami og hjá ESB-15. Af hverju Noregur fær ekki að vera með í þessum hluta rannsóknarinnar veit ég ekki. Kannski af því að Noregur er ríkasta land í heimi þegar allt er tekið með í reikninginn?
Önnur fullyrðingin, sú með laun eftir skatta, er í besta falli villandi. Með því að taka meðallaun eftir skatta og bera þau saman með tilliti til verðlags fær höfundur það út að Danmörk sé fátækasta land Evrópu og Portúgal það ríkasta, merkilegt nokk. Ekki tekur höfundur með í reikninginn prívatútgjöld Ameríkubúa til heilbrigðis- og menntamála, sem velta á þúsundum dollara á ári, né heldur tilfærslur sem einstaklingar fá frá hinu opinbera í löndum eins og Danmörku. Einnig gleymist að hluti Evrópubúa þarf ekki að eiga bíl vegna góðra almenningssamgangna, og þessi hluti leggur þar með minna til landsframleiðslunnar.
Þriðja fullyrðingin er auðvitað fáránleg og varla orðum á hana eyðandi. Allir sem hafa komið til Noregs vita að Norðmenn eru einfaldlega praktískir, nægjusamir og hagsýnir. Dæmigerður Norðmaður á nokkrar milljónir í bankanum og skuldar bara af íbúðinni, og kannski hyttunni sem hann á uppi í fjalli, og jú mikið rétt, tekur með sér nesti í vinnuna. Sumum Íslendingum finnst þetta vera nánasarháttur, enda sparsemi ekki hluti af íslensku þjóðarsálinni enn sem komið er. Þetta viðhorf Norðmanna endurspeglast hins vegar líka í starfsemi hins opinbera - þó að norska ríkið eigi hundruð milljarða í sjóðum og skuldi ekki neitt (algjör andstæða bandaríska ríkisins...) þá réttlætir það ekki fjáraustur í alls kyns lúxus.
Eigum við að halda áfram? Á Norðurlöndum er meðalvinnuvikan í kringum 38 tímar en í Bandaríkjunum vinna flestir meira en 45 tíma. Norðurlandabúar eru í sumarfríi fimm til sex vikur á ári en Bandaríkjamenn fá flestir tvær vikur. Í Bandaríkjunum er krónískur viðskiptahalli, ríkið er eitt hið skuldsettasta í veröldinni og raunverulegt atvinnuleysi slagar hátt í tveggja stafa tölu, enda eru langtímaatvinnulausir ekki taldir með vestan hafs. Engin þjóð á Vesturlöndum skuldar meira í neyslulánum, býr við meira áreiti frá auglýsendum, eyðir meiri tíma í bílnum, elur af sér fleiri offitusjúklinga, mengar meira, fremur fleiri morð og eyðir meiri peningum í hernað en Bandaríkjamenn. Það getur vel verið að menn eins og Ólafur Teitur Guðnason vilji frekar stefna í þessa átt en flestir sem ég þekki eru sáttari við norræna módelið.
Sannleikurinn er sá að almenningur hefur það ansi gott bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Íslendingar og Norðmenn gætu upp til hópa fengið sér hvítvínsglas með hádegismatnum daglega en kjósa bara að gera það ekki. Með tilliti til þess og þeirrar staðreyndar að í hverri úttektinni á fætur annarri koma Norðurlönd út sem einhver samkeppnishæfustu, tæknivæddustu, ríkustu og best menntuðu þjóðfélög heims, hljótum við hin sem teljum Ísland eiga heima í Evrópu að gefa lítið fyrir meintan sannleik Ólafs Teits Guðnasonar.
Voðalegur æsingur er þetta út af Eurovision. Það nýjasta er að það á að "skoða þátttöku Íslands í keppninni" hjá RÚV, lesist: það kemur til greina fara í fýlu og hætta að taka þátt. Það væri synd því Eurovision er einn af skemmtilegustu vorboðunum, og það segi ég og skrifa þótt ég sé gagnkynhneigður.
Það væri kannski ráð að líta aðeins í eigin barm. Flutningur Selmu var bara ekki að virka - hún gerði hlutina alveg rétt og stóð sig vel en ég er ekki alveg viss um að hún hafi verið að gera réttu hlutina. Veit ekki alveg hvort það er málið að vera í hnésíðum rauðum gammosíum (sem þurfti að sækja efnið í alla leið til London.. hlýtur að hafa verið gott í þessu) og vera með ballettdansara sem liggja í gólfinu hálft lagið og syngja (misvel) bakraddirnar um leið. Lagið var ágætis popplag sem þó þarf fleiri en eina hlustun og flutningurinn var tilgerðarlegur og náði engan veginn til mín eða annarra sem ég hef heyrt frá.
Það gengur heldur ekki að segja að þetta sé austantjaldslöndunum að kenna.. Noregur, Danmörk og Sviss komust áfram, með því að ná til áhorfenda. Ég ætla að horfa á Eurovision á morgun og vona að einhver nenni að horfa með mér. Heja Norge!
Það er kominn tími á lög um fjármál stjórnmálaflokka. Einfaldar reglur sem flest ef ekki öll lýðræðisríki (nema Ísland) hafa komið á þar sem kveðið er á um að framlög til stjórnmálaflokks yfir ákveðinni upphæð eigi að gefa upp. Hvað er svona flókið við þetta? Alltaf þegar það er byrjað að tala um þetta þá byrjar Flokkurinn með sömu biluðu plötuna:
"og nú hva af hverju opnar Samfylkingin ekki bókhaldið sitt! hefur hún eitthvað að fela!"
Af hverju bendir enginn (og þessu er auðvitað sérstaklega beint til Samfylkingarinnar) ekki á það að þetta eru ekki rök í málinu heldur tilraun til að beina umræðunni yfir í eitthvað allt annað? Í rauninni finnst mér notkun á þessum "rökum" benda eindregið til þess að Flokkurinn hafi eitthvað að fela.
13 apríl 2005 ::: Friðhelgi lífsins og flokkshagsmunir
Það er eflaust orðið fullseint að minnast á mál Terri Schiavo en ég ætla nú samt að gera það. Kristnu íhaldsmennirnir sem vildu ólmir halda lífinu í þessari vesalings konu (blessuð sé minning hennar) notuðu þau rök að lífið væri heilagt. Þessir sömu kristnu íhaldsmenn berjast síðan á hæl og hnakka gegn því að fátækt fólk fái heilbrigðisþjónustu. Hvað ætli margir Bandaríkjamenn hafi dáið vegna þess að þeir fengu ekki rétta sjúkdómsgreiningu eða meðferð vegna peningaskorts? Ekki nóg með það, heldur er þetta sama liðið og vill að ríkisvaldið geti tekið 17 ára þroskahefta einstaklinga af lífi. Ótrúlegt lið.
Sjálfstæðismenn eru núna lúmskt að reka áróður fyrir því að Háskólinn í Reykjavík verði í Garðabæ í framtíðinni. Atli Rafn Björnsson, fyrrum skólabróðir minn úr HR og fyrrum formaður Heimdallar (en það mun vera félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík) skrifar grein í Moggann 30. mars sl. þar sem hann finnur Vatnsmýrarlóðinni allt til foráttu og tíkin.is borgaði fyrir könnun með mjög leiðandi spurningu þar sem niðurstaðan var sú að HR ætti alls ekki að fá pláss í Vatnsmýrinni nálægt Nauthólsvík. Ein helstu rök Sjálfstæðisflokksins fyrir því að við ættum að kjósa hann í síðustu borgarstjórnarkosningum voru þau að fólk og fyrirtæki væru að flýja úr Reykjavík. Ætli það séu hagsmunir HR og almennings á Reykjavíkursvæðinu sem flokkurinn hefur í huga þegar hann rekur áróður fyrir flutningi skólans til Garðabæjar?
Meðlimir Frjálshyggjufélagsins svokallaða eru mjög uppteknir af ágæti þeirra þumalputtareglu sem þeir lifa eftir, þ.e. að ef afskipti ríkisins af einstaklingunum séu engin þá komist á einhvers konar draumaríki, jafnvel himnaríki. Svo uppteknir eru þeir að þeir virðast þefa uppi alla gagnrýni á frjálshyggju á netinu, jafnvel á mínu lítið lesna bloggi, og nýjasti pistillinn minn virðist heldur betur hafa stuðað þá því þeir hafa gert út formann sinn til að skrifa heillangt svar við honum á bloggi sínu. Að vísu þurfti að benda mér á svarið og til mín er vísað sem "einhvers vinstrimanns".
Ég lít reyndar ekki á mig sem vinstrimann. Ég myndi frekar kalla mig pólitískan efahyggjumann. Ég efast mjög um að það sé hægt að heimfæra einfaldar kennisetningar og þumalputtareglur upp á tilveruna, þó að það sé mjög freistandi að halda að það geti átt við. T.d. var þumalputtaregla kommúnismans "enginn má eiga neitt, allir eiga allt jafnt". Við sáum til hvers sú þumalputtaregla leiddi og frjálshyggjumenn eru duglegir við að benda á það. Kennisetning frjálshyggjunnar er hins vegar "einstaklingar eiga að fá að gera það sem þeim sýnist svo lengi sem þeir skaða ekki aðra". Hljómar fallega eins og kommúnisminn. En má ég sem einstaklingur þá eiga, kaupa og selja kjarnorkuvopn, svo lengi sem ég nota þau ekki? Er Frjálshyggjufélagið á þeirri skoðun?
Annað sem frjálshyggjumenn eiga sameiginlegt með kommúnistum er að kenna "hinu illa", í þeirra tilfelli ríkisvaldinu, um allt það slæma sem sprettur af markaðsfrelsinu. Dæmi: Ef börn eru seld í þrælkun, þá er það vegna þess að ríkið neyðir fólk til að ganga í verkalýðsfélög, sem veldur atvinnuleysi. Það var heldur aldrei kommúnismanum að kenna þegar hann virkaði ekki, heldur borgarastéttinni og heimskapítalismanum.
Ég nenni ekki að svara Gunnlaugi Jónssyni lið fyrir lið, enda tæki það mig hálfan vinnudag, og ég er hættur að nenna að standa í þrætum við þrjóska einstaklinga með ranghugmyndir. Ég hef einfaldlega aðra sýn á lífið og tilveruna en öfgafrjálshyggjumenn, ekki síst á frelsið (sem ég tel standa fyrir eitthvað víðtækara og dýpra en bara frelsi frá afskiptum opinberra aðila af eignarréttinum). Gunnlaugur kallar mig vinstrimann, og gengur út frá því að ég, höfundur pistilsins, sé á móti frjálsum markaði og vilji hann feigan. Fátt er fjær lagi enda byggja þau þjóðfélög sem eru mér mest að skapi að miklu leyti á frjálsum markaði. Eða svo ég orði það skýrar, hæfilegri blöndu af markaðsviðskiptum og ríkisafskiptum.
En ef við tökum eitt dæmi sem ég þekki vel til, lyf, þá heldur Gunnlaugur að frjáls markaður nægi til að veita lyfjafyrirtækjum aðhald. Lyfjafyrirtæki eru reyndar besta dæmið um það að frjáls markaður nýtist ekki sem skyldi án víðtækra afskipta opinberra aðila. Lyfjafyrirtæki hafa orðið uppvís að því að falsa niðurstöður rannsókna, setja á markað lyf sem virka ekki eins og þau eiga að virka en græða samt milljarða dollara á þeim. Í löndum þar sem brotalamir eru í opinberu eftirliti með lyfjum eru 20-80% lyfja hreinlega fölsuð, og einstaklingar sem fá heilahimnubólgu deyja vegna þess að "sýklalyfin" þeirra á sjúkrahúsunum eru saltvatn!
Enginn iðnaður græðir jafnmikið og lyfjaiðnaðurinn en samt vill Gunnlaugur stofna öryggi sjúklinga í hættu með því að láta ríkið hætta að vera síðasti "filterinn" fyrir lyf sem fara á markað. 5-10% lyfja sem sótt er um markaðsleyfi fyrir eru dregin til baka áður en samþykki fæst. Ef ekkert faglegt mat færi fram á vegum opinberra aðila færu þessi lyf á markað með skelfilegum afleiðingum fyrir alla aðra en lyfjafyrirtækin, sem eyða milljörðum í að slá ryki í augu almennings og heilbrigðisstarfsmanna. Faglegt mat á lyfjum er í raun bara tæki til að koma í veg fyrir að lyfjafyrirtækin skaði einstaklinga. Það er of seint að fara í mál út af röngum upplýsingum um lyf ef barnið manns fæðist vanskapað. Lyfjamarkaðurinn er því gott dæmi um markað sem er undir stífu eftirliti ríkisins en virkar samt ágætlega í grundvallaratriðum. Enginn kommnúnismi þar á ferð.
Reyndar er það ekki bara gróðahvati sem skilar okkur nýsköpun í formi nýrra lyfja. Helmingur allra frumrannsókna á lyfjum eru "non-profit" og á vegum háskóla, opinberra aðila eða félagasamtaka. Auk þess er megnið af gróða lyfjafyrirtækja til komið vegna ríkisvaldsaðgerða sem kallast einkaleyfi. Lyfjafyrirtæki eyða meiru í auglýsingar og markaðssetningu en rannsóknir og þróun. Lyfjafyrirtæki setja mun fleiri lyf á markað við velmegunarsjúkdómum og sjúkdómum sem þau hafa sjálf blásið upp eða jafnvel búið til (t.d. stinningarvandamálum) heldur en sjúkdómum sem eru hættulegir eða banvænir. Nú er ég búinn að tína til ýmislegt á lyfjaiðnaðinn og niðurstaða Frjálshyggjufélagsins er eflaust sú að ástandið sé eins og það er vegna þess að ríkisvaldið skekki markaðinn. Ef afskipti þess væru afnumin lagaðist allt af sjálfu sér, eða ekki, og ef ekki þá er amk. réttlætinu fullnægt þó að "réttlætið" leiði af sér eymd, volæði og dauðsföll. Mjög fyrirsjáanlegur þankagangur.
Að lokum vil ég skora á Frjálshyggjufélagið að bjóða fram í næstu sveitarstjórnarkosningum og láta á það reyna hversu stór hluti þjóðarinnar vill selja holræsin einkaaðilum.
Nonni er frjálshyggjumaður. Hann vaknar kl. 7 um morguninn og hellir upp á morgunkaffið. Hann fyllir kaffivélina af hreinu drykkjarvatni af því að einhver ríkisafskiptasinni setti það í hegningarlög að það væri ólöglegt að menga drykkjarvatn. Hann tekur lyfin sín með morgunmatnum, og hann getur treyst því að þau séu örugg og virki alltaf rétt vegna þess að einhver vinstri fasisti kom á fót lyfjastofnunum til að tryggja það að verkun lyfsins, gæði og öryggi séu í samræmi við það sem er auglýst. Nonni borgar bara 1.200 krónur fyrir lyfjapakkningu með mánaðarskammti en ekki 12.000 vegna þess að einhver ríkisafskiptasinni barðist fyrir því að Tryggingastofnun tæki þátt í lyfjakostnaði sjúklinga.
Nonni fer í sturtu og setur sjampó í hárið. Sjampóflaskan er merkt með hverju einasta innihaldsefni, og öll hafa þau verið prófuð vegna þess að einhver forsjárhyggjumaður ákvað að hann hefði rétt til að vita hvað hann væri að setja á líkama sinn. Nonni klæðir sig, fer út og andar að sér hreinu lofti af því að einhver fóstrufasisti í útlöndum barðist fyrir því að setja lög til að takmarka útblástur frá bílum, skipum og verksmiðjum.
Nonni stimplar sig inn á vinnustaðnum sínum. Hann er í góðri vinnu og fær góð laun, launað sumarfrí, veikindadaga, hádegismat og yfirvinnuna sérstaklega borgaða af því að einhverjir kommúnistar helguðu líf sitt því að berjast fyrir starfskjörum hans. Vinnuveitandi Nonna myndi hugsanlega breyta þessum skilmálum ef starfmenn ættu ekki möguleikann á að kæra hann eða tala við trúnaðarmann verkalýðsfélagsins. Ef Nonni slasast í vinnunni, missir geðheilsuna eða bara missir vinnuna þá fær hann bætur frá ríkinu vegna þess að einhver vinstri vitleysingur var þeirrar skoðunar að hann ætti það engan veginn skilið að missa heimili sitt út af tímabundnum mótbyr.
Í hádeginu fer Nonni í bankann og borgar reikninga. Millifærslur Nonna eru verndaðar með lögum um greiðslufyrirmæli og af Fjármálaeftirlitinu vegna þess að einhver allaballi taldi rétt að verja peninga Nonna fyrir óheiðarlegum bankamönnum sem sums staðar hafa lagt bankakerfi heilu ríkjanna í rúst. Nonni þarf að borga af ríkisniðurgreidda námsláninu sínu vegna þess að einhver vinstrimaður ákvað að bæði Nonni og ríkið yrðu betur sett ef Nonni gæti sótt sér menntun og þénað meiri peninga.
Eftir vinnu fer Nonni að heimsækja pabba sinn, sem er bóndi á Suðurlandi. Vegurinn sem hann keyrir eftir, rafmagnið, hitalögnin, vatnslögnin, símalínan og sjónvarpssendirinn í sveitinni hefði aldrei verið komið á nema af því að einhver sósíalisti greip inn í gangverk markaðarins og krafðist þess að dreifbýlið fengi sömu grunnþjónustu og þéttbýlið. Hann er ánægður að sjá pabba sinn, sem lifir á ellilífeyri frá ríkinu og greiðslum úr Lífeyrissjóði bænda vegna þess að einhver velferðarkrati tryggði að Nonni þyrfti ekki að framfleyta honum, heldur gæti pabbi hans framfleytt sér sjálfur burtséð frá því hvernig aðstæður voru á meðan hann var á vinnumarkaðnum.
Þegar Nonni kemur heim kveikir hann á tölvunni sinni og rúntar um vefsíður frjálshyggjumanna, sem tala um minna ríkisvald, lægri skatta, færri reglur og einkavæðingu sem lausn á öllum vandamálum heimsins. Nonni er líka alveg sammála - "við þurfum ekki þetta ofvaxna ríkisvald til að skipta sér af okkur, ég hef unnið fyrir öllu mínu sjálfur og mér finnst að allir eigi að taka fulla ábyrgð á sjálfum sér, alveg eins og ÉG."
(Þessi pistill er þýddur og staðfærður. Nöfnum hefur verið breytt.)
Hnakkus benti mér á merkilegt bréf sem bandarískur hermaður í Írak sendi David Duke, leiðtoga bandarískra þjóðernissinna. Þessi hermaður er enginn friðarsinni en honum ofbauð ýmislegt sem hann var látinn gera. Gefum honum orðið (í þýðingu undirritaðs..) :
"Við gerum miklu verri hluti en þið sáuð á myndbandinu. Þegar við komum í íbúðarhús í Fallujah, öskruðum við á fólkið að koma sér út. Yfirleitt gátum við ekki sagt þeim það á arabísku vegna skorts á túlkum, og þetta fólk veit ekki hvað "come out" þýðir á ensku - ekki frekar en þið mynduð skilja það ef það yrði sagt á arabísku.
Fullt af fólki var of hrætt til að fara úr húsi. En eftir að við aðvöruðum það, þá fórum við inn. Veistu hvernig? Við fylltum bygginguna og hvern einasta glugga af vélbyssukúlum, og síðan hentum við oft inn handsprengju. Ef einhverjir óbreyttir borgarar voru í byggingunni dóu þeir eða særðust. Á einni viku sá ég sjálfur a.m.k. hundrað lík í brunnum og sundurskotnum íbúðum, og ég sá bara örlítið brot af Fallujah. Og hvað gerðum við við hina særðu? Ekki neitt. Við fórum bara yfir í næstu byggingu - við erum hermenn, ekki sjúkraliðar, og það voru engir sjúkraliðar á eftir okkur. Ég held að hugsunarhátturinn sé sá að það sé betra að særðir óvinir deyi svo þeir geti ekki barist við okkur meir."
En hvað um það. Eflaust eru nú góðar og gildar ástæður fyrir þessu öllu, t.d. gjöreyðingarvopn eða tengsl Saddams Hussein við Al Kaída. Þeir sem vilja kynna sér hina hlið málsins geta skellt sér á myndina Fahrenhype 9/11 í kvöld í Valhöll, í boði Sambands ungra sjálfstæðismanna!
Það virðist vera nokkuð gild (ekki endilega algild) regla að annaðhvort hefur fólk tíma eða peninga. Ef við tökum jólagjafir sem dæmi þá gefur fólk sem á engan tíma, en syndir í peningum, gjarnan bíla í jólagjöf. Hinir sem eiga engan pening en nægan frítíma búa sjálfir til flestar jólagjafirnar eða láta sér detta eitthvað ódýrt í hug sem gleður eða vekur kátínu. Háskólanemar og listamenn eiga fullt af tíma en engan pening. Læknar og forstjórar eiga fullt af peningum en engan tíma fyrir eitt né neitt.
Hvort ætli sé betra að eiga nóg af tíma eða nóg af peningum? Ef við tökum nokkur dæmi úr daglega lífinu þá virðist það almennt koma betur út að eiga tíma. Börn vilja frekar að foreldrar eyði tíma með þeim heldur en að þeir kaupi handa þeim drasl (þótt þau haldi stundum annað). Það er betra að hafa tíma til að stunda líkamsrækt og laga sér hollan mat heldur en peninga til að eyða í ruslfæði og líkamsræktarkort sem maður notar aldrei af því maður hefur aldrei tíma. Svo er líka betra að eiga tíma til að eyða með vinum sínum og sinna áhugamálunum heldur en að eiga pening til að kaupa sér óþarfa fullorðnisleikföng sem maður hefur aldrei tíma til að nota.
Verst er þó örugglega að eiga aldrei pening og neyðast til að vinna myrkranna á milli fyrir skuldum, út af drasli sem maður hélt að maður þyrfti og keypti út á lán. Niðurstaða mín er altént sú að peningar, og það sem þeir geta keypt, eru almennt frekar ofmetið fyrirbæri.