brjóstvörn sannleikans  

hvítt blogg


Heim Gamalt og gott Póstur
Hnakkus Vala Elísabet
Glöggið Raggi Mikki

16 desember 2004 :::
 
Tilvitnun dagsins

"Raunsæismenn hafa réttar fyrir sér um hluti í lífinu en bjartsýnismenn. En bjartsýnismenn virðast eiga fleiri vini og skemmta sér betur."

Megan, 14 ára.


::: hent inn 22:06 :::


14 desember 2004 :::
 
Auglýsingar og frelsi

Eins og margir vita þá hafa nokkrir þingmenn lagt fram frumvarp um að banna fyrirtækjum að auglýsa nammi og gos í sjónvarpi fyrir kl. 9 á kvöldin. Ólafur Teitur Guðnason, góðvinur Sigurðar Kára og einn helsti skósveinn Davíðs Oddssonar í fjölmiðlaheiminum, ákvað að grípa þetta á lofti í síðasta Sunnudagsþætti á Skjáeinum og spilaði eina biluðustu plötu frjálshyggjunnar - "frelsið glatast sjaldan allt í einu", einhver tilvitnun frá 19. öld sem frjálshyggjumenn telja óyggjandi sönnun þess að ef markaðsöflin fá ekki að kaupa, selja og auglýsa hvað sem er, hvar sem er og hvenær sem er þá muni þjóðfélagið enda sem einhvers konar Sovét-Ísland.

Þetta segja kenningarnar semsagt, að vísu kenningar og frasar sem flestir hlæja að í dag þótt enn séu stofnuð félög um þær. En hvaða dæmi höfum við úr raunveruleikanum, þegar nammiauglýsingar og börn eru annars vegar? Lítum t.d. á bandaríska grunnskóla. Þeim er naumt skammtað rekstrarfé og þurfa að sækja auglýsingafé til einkaaðila. Frábært samkvæmt kenningunni en raunveruleikinn er sá að bandarísk börn eru þau feitustu í heimi. Þau eru bombarderuð með auglýsingum um sælgæti, gos, snakk, skyndibita, ofbeldismyndir og tölvuleiki alltaf, alls staðar, meðal annars í skólanum. Í 12 þúsund grunnskólum í Bandaríkjunum eru börn neydd (já, neydd) til að horfa á sjónvarpsstöðina Channel One í 12 mínútur á dag. Channel One sjónvarpar auglýsingum beint í skólastofurnar. Fyrir utan þetta þá bítast Coke, Pepsi og Dr. Pepper um einkasölusamning við hvern einasta grunnskóla í Bandaríkjunum. Í fæstum sjálfsölunum er hægt að fá vatn, mjólk eða ávaxtasafa.

Þingmennirnir sem lögðu fram þetta frumvarp hafa áhyggjur af því að íslensk börn séu að verða eins og bandarísk. Íslensk börn ERU að verða eins og bandarísk. Akfeit og sykursjúk af rusláti og hreyfingarleysi. Ef auglýsingabann í barnatímum er svona mikil frelsisskerðing, af hverju ekki þá að leyfa auglýsingar á sígarettum, vodka og þunglyndislyfjum? Líka í barnatímum.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er ekkert sérstakt samsæri í gangi um að láta frelsið fuðra upp. Það er líka morgunljóst að þjóðfélög ameríkaníserast ekki á einni nóttu - heldur smátt og smátt.


::: hent inn 17:51 :::


12 desember 2004 :::
 
Einkareknir skólar og skólagjöld

Ég hef ekkert á móti því að aðrir en ríkið reki menntastofnanir, sérstaklega ef það eykur fjölbreytni og stuðlar að nýrri og öðruvísi hugsun. Ég er sjálfur með gráðu frá einni slíkri stofnun og finnst það ágætt.

En það er eitt sem ég skil ekki. Ef einkaskólar eru svona vel reknir og ríkisskólar svona illa reknir, af hverju þurfa einkaskólarnir þá meiri pening heldur en ríkisskólarnir (skólagjöld upp á 20% af ríkisframlaginu) til að gera góða hluti? Af hverju nýta þeir ekki bara peningana betur en ríkisskólarnir, úr því að ríkisskólarnir eru svona illa reknir? Þeir hafa úr að moða upphæð sem talsmenn einkaskólanna eru búnir að ákveða að séu nægir peningar til að reka skóla...


::: hent inn 13:56 :::


04 desember 2004 :::
 
Lýðræði

Ég fór aðeins að velta fyrir mér hugtökunum lýðræði, flokksræði og einræði. Skilgreiningin hlýtur að vera svona:

Lýðræði: Ráðamenn leitast við að stjórna samkvæmt vilja fólksins og hafa samráð við sem flesta til að sem flestir séu sáttir og mál séu unnin út frá almennri skynsemi. Ef upp koma álitamál þar sem ekki er hægt að tala sig að niðurstöðu, t.d. þar sem um er að ræða gildismat, ræður meirihlutinn.

Flokksræði: Ráðamenn leitast við að stjórna samkvæmt vilja flokksins og hafa samráð við flokksmenn til að þeir séu sáttir og mál séu unnin samkvæmt þeirri stefnu sem flokkurinn hefur markað sér. Ef upp koma álitamál skera stofnanir flokksins úr um þau.

Einræði: Ráðamenn leitast við að stjórna samkvæmt eigin vilja og hafa ekkert samráð við neinn nema etv. vini sína, ráðgjafa og aðra sem hjálpa þeim að halda völdum. Ef upp koma álitamál sker foringinn úr um þau. Ráðamenn planta einkavinum sínum og jábræðrum í allar mikilvægar stöður í kerfinu, s.s. í fjölmiðla og dómstóla. Þeir sem eru ósammála æðstu ráðamönnum eru ofsóttir með kerfisbundnum hætti.

Menn geta svo velt því fyrir sér hvar ríkisstjórn Íslands lendir inni á þessum skala...


::: hent inn 13:17 :::




Powered by Blogger