Einn af menningarsjúkdómum neyslusamfélagsins er anorexía, eða lystarstol. Hann lýsir sér í því að sjúklingurinn heldur stöðugt að hann sé of feitur og, þurfi helst að léttast um helming. Sjúklingurinn verður veruleikafirrtur. Margir telja að þetta sé vegna þess að markaðsöflin halda þeirri hugmynd stöðugt að fólki, aðallega kvenfólki, að það sé of feitt, í því skyni að selja því ýmsar fegrunar- og megrunarvörur. Sitt sýnist hverjum um þetta.
Nú er það svo að margir telja að hinu opinbera veiti ekki af smá megrun. Að það væri rétt að skera aðeins af því aukafituna. Og vissulega er af nógu að taka. Eflaust hafa einhverjir hópar, sem lítið leggja af mörkum til samfélagsins, náð að seilast í ríkissjóð eftir peningum og orðið háðir þessum framlögum. Það er ekki gott. En engu að síður hafa menn sameiginlegar þarfir, við búum í samfélagi við annað fólk og markaðurinn getur ekki einn sinnt öllum þessum þörfum. Þótt hið opinbera hafi einhver aukakíló á sér þá hefur það líka bein og vöðva sem gera samfélagið okkar siðað.
Anorexíusjúklingurinn hefur vit á að líta ekki á hjartað og lungun (heilbrigðiskerfið) og heilann (menntakerfið) sem aukakíló. En það er fátt annað sem er hlíft. Lítum aðeins á niðurskurðartillögur anorexíusjúklingsins:
Leggja niður öll sendiráð Íslands og hætta að taka þátt í norrænni samvinnu. Hætta að styrkja allar rannsóknir (nema þær sem eru við Háskóla Íslands). Hætta að aðstoða önnur ríki við að virkja jarðhita. Láta Sinfóníuna, Þjóðleikhúsið, Óperuna, og öll söfn starfa á "frjálsum markaði". Hætta skógrækt. Klippa á alla styrki til bænda á einu bretti, því dreifbýlið er svo óhagkvæmt. Leggja niður Þjóðskjalasafnið - það er örugglega hagkvæmast að brenna bara gömlu skjölin eins og hverju öðru aukakílói. Leggja niður Umferðarstofu og öll sýslumannsembættin - ætli einhver finni muninn? Leggja niður Vinnueftirlitið - það deyja kannski fleiri í vinnuslysum en líf þeirra eru nú varla 286,7 milljón króna virði? Ábyrgðarsjóður launa er líka óþarfa spik - auðvitað er það launþegum að kenna ef vinnuveitandinn þeirra fer á hausinn! Svo er þetta Ferðamálaráð gjörsamlega óþarft - hver þarf göngustíga og upplýsingaskilti á ferðamannastöðum? Betra að einkavæða þetta bara - ef eigandinn malbikar yfir Geysi þá er það hans einkamál. Brunamálastofnun - hver þarf brunavarnir? Geta einkaaðilar ekki sinnt þeim?
Svona má lengi telja, og margur hlýtur að spyrja sig hvort aumingja sjúklingurinn hafi einhverja hugmynd um hvaða hlutverk þessi stoðkerfi hafa fyrir líkamann. Kannski er anorexíusjúklingurinn með heilaæxli. Og margir hljóta að spyrja hvort ég sé að grínast - er einhver að halda svona hugmyndum fram í alvöru? Já - ungliðahreyfing stærsta stjórnmálaflokks landsins. Í alvöru.
21 október 2003 ::: Biskup finnur sex, fer á einar fimm
Ætli maður verði ekki að agnúast út í biskupinn eins og svo margir aðrir. Í Fréttablaðinu í gær hélt hann því fram að það væri ekki vitlaust að ein trúarbrögð væru rétthærri en öll önnur, þ.m.t. það að trúa því að trúarbrögð séu drasl, af því við búum í lýðræðisríki og 88% Íslendinga eru í þjóðkirkjunni. Þess vegna væri eðlilegt að kirkja biskupsins væri á framfæri skattgreiðenda og nyti forréttinda fram yfir önnur trúfélög.
Í nákvæmlega sama viðtali kemur fram að í könnun eftir könnun kemur fram að 60-70% Íslendinga eru hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju. Það er ansi ríflegur meirihluti, og ætti að vera okkar lýðræðiselskandi biskup umhugsunarefni, ekki satt?
Og fyrst við erum að þessu á annað borð, eigum við þá ekki að spyrja sjálf okkur nokkurra áleitinna spurninga:
Tóku 88% Íslendinga upplýsta ákvörðun um að ganga í þjóðkirkjuna?
Trúa 88% Íslendinga því að þeir fari til helvítis ef þeir trúa ekki á Jesú?
Trúa 88% Íslendinga því að þeir séu meira í náðinni hjá Guði ef þeir mæta í messu og lofsyngja hann?
Eru 88% Íslendinga á móti hommum og lesbíum?
Vilja 88% Íslendinga að það sé kennt í grunnskólum að Guð hafi skapað heimin á sjö dögum og að fyrsta konan hafi verið búin til úr rifbeini karlmanns?
Trúa 88% Íslendinga yfirhöfuð á Guð?
Ég held reyndar, að 88% Íslendinga trúi á lýðræði, umburðarlyndi fyrir mismunandi lífsviðhorfum, og rétt sjávarþorpa úti á landi til að kynna sögulegan arf sinn, sama hvað þessi sögulegi arfur fer mikið í taugarnar á gagnslausum silkihúfum á launaskrá hjá ríkinu.
"It is true that if you are poor and can't afford a good lawyer, your odds of going to prison skyrocket. But you know what? Tough!" -- Bill O'Reilly
Ég verð að játa eitt á mig. Ég fíla Bandaríkjamenn. Flestir Kanar sem ég hef kynnst í gegnum tíðina (að vísu hef ég kynnst fáum í Bandaríkjunum sjálfum) eru almennilegir og einstaklega opnir og auðveldir í umgengni. Flestir eru reyndar dálítið einfaldir og ekkert sérstaklega vel upplýstir, en það er nú bara sætt á sinn hátt.
Svo er ákveðinn hópur fólks í þessu annars ágæta landi, um 30% þjóðarinnar, sem skemmir fyrir. Þröngsýnt ofsatrúarfólk sem hefur aldrei komið út fyrir sitt heimafylki, hvað þá út fyrir Bandaríkin. Það telur að rétturinn til að eiga byssu séu æðstu réttindi hvers manns, styður dauðarefsingar, úthrópar fóstureyðingar og finnst ekkert að því að skera niður til grunnskóla, gamals fólks og bókasafna til að forstjórar geti keypt sér betri snekkju og einkagolfvöll. Fasisminn er algjör. Kynfræðsla á að víkja fyrir bænahaldi, fræðsla um getnaðarvarnir fyrir skírlífi og þróunarkenningin fyrir sköpunarkenningunni. Washington er lastabæli og Evrópa (sem er kommabæli) byrjar í New York og Boston. Bandaríkin voru valin sérstaklega af Guði, og þess vegna eiga Bandaríkin að stjórna heiminum með góðu þar sem það er mögulegt, og illu þar sem það er nauðsynlegt.
Þetta drasl stjórnar Bandaríkjunum í dag. Og það sem er undarlegt er að draslið á sér talsmenn hér á landi. Björn Bjarnason er ansi öflugur og eins útvarpsstjórinn okkar. Andrés Magnússon er harður repúblíkani og óvinur strætó númer eitt bítur stundum frá sér til að réttlæta kúgun á Palestínumönnum eða bara morð á aröbum almennt.
Michael Moore bendir á það í nýjustu bók sinni, Dude Where's My Country, að það virðist ekki nægja talsmönnum ameríska íhaldsins að það stjórnar ríkinu, þinginu og hæstarétti. Alltaf koma nýir og nýir pistlar fullir af hatri og pirringi út í frjálslynda vinstrið. Ann Coulter, vinkona Björns Bjarnasonar, talar um að taka friðarsinna af lífi fyrir landráð, teppaleggja yfir borgir í arabalöndum og að það sé í lagi að nauðga jörðinni því Guð hafi gefið manninum hana. En af hverju skyldi þetta vera? Michael Moore kemur með nokkrar skemmtilegar tölur sem ættu að fá Björn Bjarnason og Andrés Magnússon til að engjast um af bræði. Lítum á tölurnar:
57% Bandaríkjamanna eru hlynntir frjálsum eða nokkurn veginn frjálsum fóstureyðingum.
86% Bandaríkjamanna styðja aðgerðir til að jafna hlut kynþátta.
74% Bandaríkjamanna telja sig eiga margt sameiginlegt með fólki af öðrum kynþáttum.
83% Bandaríkjamanna taka undir sjónarmið umhverfisverndarsamtaka.
94% Bandaríkjamanna vilja alríkislög sem takmarka framleiðslu, sölu og notkun á byssum.
75% Bandaríkjamanna eiga ekki byssu.
62% Bandaríkjamanna vilja mildari refsingar við öðrum glæpum en ofbeldisglæpum.
85% Bandaríkjamanna vilja lög sem tryggja réttindi samkynhneigðra á vinnumarkaði.
58% Bandaríkjamanna telja verkalýðsfélög vera af hinu góða.
88% Bandaríkjamanna hafa lítið eða ekkert traust á yfirstjórnendum stórfyrirtækja.
Sjáið þið ekki Markús Örn og Sigurð Kára engjast um af bræði yfir þessum tölum? Bandaríkjamenn eru upp til hópa ágætis fólk. Fæstir þeirra styðja það sem Bush og félagar standa fyrir. Gallinn er bara að þeir eru flestir illa upplýstir, og það er auðvelt að ljúga að og hræða illa upplýst fólk.
16 október 2003 ::: "Það verður að segjast eins og er um hvíta kynstofninn að hann hefur sjálfsálitið í lagi. Hver annar myndi fara til lítillar eyju í Suður-Kyrrahafinu þar sem er engin fátækt, engir glæpir, ekkert stríð og engar áhyggjur - og kalla það 'frumstætt samfélag' ?"
Ég ætla að leyfa mér koma með mjög róttæka tillögu. Ég ætla að leggja það til að verslun með fólk (já, þrælahald) verði lögleidd. Einstaklingar ættu að mega selja sjálfa sig og frelsi sitt, og eigandinn má svo ráðstafa þeim að vild. Að sjálfsögðu myndu allir eiga sjálfa sig þegar lögin myndu taka gildi, en svo yrði allt gefið frjálst. Rök? Hér eru þau:
Fyrirtæki mega eiga önnur fyrirtæki. Löggjöfin er nú þegar þannig að fyrirtæki hafa nákvæmlega sömu réttindi og einstaklingar (t.d. málfrelsi og réttur til stjórnmálaþátttöku), af hverju mega einstaklingar þá ekki eiga aðra einstaklinga? Fullorðnir hafa eignarrétt yfir börnum sínum, af hverju mega fullorðnir ekki eiga fullorðið fólk líka?
Aukin samkeppnishæfni atvinnulífsins. Þetta eykur sveigjanleika til mikilla muna. T.d. ráða fyrirtæki því hvort þau fjármagna sig með lánsfé eða hlutafé eða blöndu. Þau ráða hvort þau gera starfssamning við starfsfólk eða verktakasamning við annað fyrirtæki eða "starfsmannaleigu". Af hverju ekki að opna á þann möguleika að þau hreinlega eigi starfsmennina. Þá geta fjármálaspekúlantar ráðið fyrirtækjum heilt um í hvaða tilfellum það borgar sig að leigja og í hvaða tilfellum að eiga. Með núvirðingu.
Það er ekki hægt að banna þrælahald. Boð og bönn leysa engan vanda. Sjáið bara allt mansalið sem á sér stað á bak við tjöldin. Börn eru gerð að þrælum og stúlkur frá fátækum löndum eru seldar hórmöngurum. Með því að lögleiða þrælahald þá fer það að mestu leyti fram fyrir opnum tjöldum, fjölbreytnin eykst til mikilla muna (ekki bara vændi!) og svo er það líka óréttlátt þegar fólk er gabbað í þrældóm - auðvitað á slíkt að fara
fram með frjálsum samningum!
Frelsi einstaklingsins. Frelsið er á undanhaldi og með lögleiðingu þrælahalds stígum við stutt en öruggt skref í átt til aukins frelsis. Þversögn? Alls ekki. Einstaklingar eiga að hafa rétt til að semja um hvað sem er, við hvern sem er, hvernig sem er. Líka sölu á frelsi sínu. Enda yrði það skylda skv. þessum lögum að sjálfssalinn (þræll er allt of neikvætt orð) hafi rétt til að kaupa sér frelsi. Á því verði sem eigandinn setur upp. Enda á verðlagning alltaf að vera frjáls.
Útfærsluna má hugsa svona: Einhver annar gerir mér tilboð sem ég get ekki hafnað. Hann býður mér að lifa í vellystingum í ár eða svo. Eða nóg að borða í ár, ef ég er fátækur og dökkur á hörund. Eða að barnið mitt fái vegabréf í Evrópusambandsríki. Síðan verð ég eign einhvers annars og hann má gera það sem hann vill við mig. Það er ekkert við neinu að segja því eignarrétturinn er heilagur. Ef eigandinn lemur mig þá er það hans réttur. Ríkið má ekki skipta sér af. Ég ætla að boða þessar hugmyndir mínar víða. Ég er viss um að þær eigi hljómgrunn hjá Olíu- og malbiksvinafélaginu. Eða Mammonskirkjunni. Eða Félagi ungra einhleypra karlmanna með Verslunarskólapróf.
Það er gríðarleg hugmyndafræðileg gerjun í gangi hjá okkur.
a) Eignarréttur fyrirtækja á óveiddum fiski og landi
b) Verndun jarðvegs, fornra skóga og sjávarbotns
a) Að ríkið reki ekkert, sé í mesta lagi kaupandi almenningsþjónustu
b) Að fangaverðir þurfi ekki að óttast um líf sitt og skólabækur séu ekki með auglýsingum í
a) Að ríkið hætti að reka vatnsveitur og "markaðurinn" sjái um að veita þjónustuna
b) Að allir hafi aðgang að rennandi vatni
a) Að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin verði lögð niður og öll heilbrigðisstarfsemi þar með torvelduð
b) Að niðurstöður sérfræðinga frá öllum löndum um hvað sé eðlileg sykurneysla séu gerðar opinberar
Ef svarið er a) við einni spurningu eða fleiri þá ertu veruleikafirrt(ur) og ættir að leita þér aðstoðar hið snarasta.