Einhver fékk sig fullsaddann af rokinu og rændi bankann hérna beint fyrir neðan mig. Hann hefði kannski átt að telja upp að tíu því það er lögreglustöð beint fyrir ofan bankann.
Það er aðallega þrennt sem hafa ber í huga þegar velja skal íbúð til að búa í. Staðsetning, umhverfi og íbúðin sjálf. Plebbar líta auðvitað eingöngu til síðastnefnda atriðisins en mér finnst þetta allt skipta máli. Einn hluti staðsetningar og umhverfis er sérstaklega vanmetinn og það er tíðni roks. Til hvers að vera með garð eða svalir þegar það er hvort eð er alltaf rok nema 2-3 daga á ári? Þessi hugsun fer oft um hugarfylgsni mín þegar ég rölti hérna um í nágrenni vinnustaðarins á alræmda rokrassinum Seltjarnarnesi. Þar er gríðarlegur fjöldi smáborgaralegra einbýlishúsa (tvöfaldur bílskúr og jeppi á stæðinu) með stórum garði og samt alltaf rok. Og ég ætla að gerast sérlegur talsmaður roklausra hverfa og gatna til að hjálpa öðrum að sjá ljósið en ekki síður til að fá álit ykkar, ágætu lesendur. Hér er minn listi:
ROKHVERFI og -BÆIR SEM BER AÐ VARAST:
Kjalarnes
Seltjarnarnes
Álftanes
Öll Suðurnesin eins og þau leggja sig
Vesturbær 107 - suðurhluti og Grandar
Efra-Breiðholt
Grafarholt
Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi listi og ég vil endilega fá meðmæli, mótmæli og viðbætur við hann. Ég vil hins vegar ekki fá komment frá fólki sem hefur búið á Nesinu alla sína ævi og heldur því fram að þar sé aldrei rok. Ég vinn þar og þar er alltaf rok.
Sérstaklega eru vel þegnar ábendingar um fleiri staði þar sem er ekki rok!
Pistlarnir á andriki.is eru oft stórkostlegir. Höfundarnir eru yfirleitt pirraðir og bitrir, og þegar fjallað er um málefni þar sem allar staðreyndir benda til þess að kennisetningar ritsins falli um sjálfar sig, þá eru þeim sem ritið er ósammála einfaldlega gerðar upp skoðanir.
Til upprifjunar og fræðslu þá gengur hugmyndafræði frjálshyggjunnar út á
1) óheft frelsi til að kaupa og selja hverjum sem er hvað sem er, hvernig sem er og hvar sem er
2) réttinn til að eiga alla efnislega og óefnislega hluti burtséð frá afleiðingum þess, og
3) það að uppspretta allra vandamála sé ríkisvaldið og stjórnmálamenn.
Þetta “frelsi” og þessi “réttur” á við bæði um einstaklinga og stofnanir, jafnvel þó einstaklingar á bak við stofnun beri enga ábyrgð á gerðum stofnunarinnar. Öll skrifin á andriki.is ganga út frá þessum grunnreglum, nema þegar Bandaríkin eiga í hlut, en þau má aldrei gagnrýna á áðurnefndu vefsvæði.
Nýjasta dæmið um uppgerðar skoðanir er það að það sé til fólk sem haldi því fram að fátækt í heiminum sé að aukast vegna alþjóðavæðingar. Höfundur pistilsins (sem skrifar aldrei undir nafni af einhverjum ástæðum) skilur alþjóðavæðingu sem fríverslun milli ríkja. Ergó: Vinstri menn (þ.e. allir sem aðhyllast ekki frjálshyggju) segja að fríverslun milli ríkja sé að auka fátækt í heiminum. En lítum nú á raunveruleikann.
Þegar talað er um hnattvæðingu, þá er yfirleitt átt við tilhneigingu vestrænna ríkisstjórna og risafyrirtækja til að þröngva hugmyndafræði Vesturlanda upp á þróunarlönd. “Réttur” vestrænna fyrirtækja til að starfa í fátækum löndum með mun rýmri löggjöf heldur en á Vesturlöndum (t.d. engri vinnulöggjöf) er lögfestur í gegnum alþjóðastofnanir (t.d. WTO) án þess að almenningur komi þar nokkuð nálægt. Þessar alþjóðlegu reglur binda síðan hendur lýðræðislegra ríkisstjórna. Einkenni hnattvæðingar eru t.d. sala á orkuveitum og landi til erlendra auðhringja, framleiðsla á neysluvarningi (t.d. skóm og leikföngum) í þrælakistum, og innflæði á þessum sama varningi (skyndibiti, Hollywood-myndir, popptónlist osfrv.) inn á markaðinn hjá þjóðum sem komust ágætlega af án hans.
Hnattvæðing þarf ekki endilega að auka fátækt, heldur svíður þeim sem gagnrýna hana aðallega sívaxandi völd og umsvif risafyrirtækja (sem velta meiri peningum en milljónaþjóðir), baktjaldamakk í alþjóðlegum fjármálastofnunum á kostnað lýðræðis og stöðugt meiri misskipting, t.d. í kjölfarið á því að velferðarbætur eru skornar niður og orkuverð tvö- eða þrefaldast hjá fólki sem hefur það nógu skítt fyrir, eftir að einhver hvítflibbi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum setti það sem skilyrði fyrir láni.
Hmmm já. Ná ekki allir þessu með hnattvæðinguna núna? Ef ekki þá er meira hér.
Ágætis úttekt á offituvandanum í Fréttablaðinu í gær. Þar má líka sjá viðtal við framkvæmdastjóra McDonalds á Íslandi, en það er einmitt sá staður sem selur slöppustu borgarana í bænum, að Júmbó undanskildum. Hann heldur því fram að offituvandinn hafi ekkert með skyndibitaiðnaðinn að gera. Fólk ráði því sjálft hvort það fái sér vatn eða kók á skyndibitastöðum.
Neinei, skyndibitaiðnaðurinn hefur auðvitað ekkert með offituvandann að gera. Það er auðvitað ekkert samhengi milli þess að fjöldi feitra barna hefur nánast tvöfaldast á Íslandi síðustu 10-15 ár og þess að um svipað leyti hófst fyrir alvöru færibandaframleiðsla á hamborgurum, pizzum, frönskum og gosi. Og það kemur auðvitað heldur ekkert málinu við að skyndibitastaðir hafa stækkað "millistórt" gos í Bandaríkjunum úr 0,25 lítrum í 0,6 lítra síðustu áratugina. Eða að mér býðst að stækka máltíðina (og undirmenn framkvæmdastjórans minntu mig iðulega á það áður en ég hætti að borða hjá honum), þ.e. mér býðst enn meira af djúpsteiktum kartöflum og sykruðu ropvatni fyrir einungis 50 krónur.
Fólk ræður þessu auðvitað sjálft. Og það að tengja skyndibitaiðnaðinn við offitu er líklega jafnfjarstæðukennt og að tengja tískuiðnaðinn við vonda sjálfsmynd kvenna, afþreyingariðnaðinn við það að sumt fólk getur ekki skemmt sér án þess að vera matað (eða búið með 7 bjóra), auglýsingaiðnaðinn við vöntunartilfinningu, nú eða bílaiðnaðinn við aukinn útblástur gróðurhúsalofttegunda.
"Það er undarlegt að heyra mótmæli frá þjóðum sem sjálfar stunda alls kyns veiðar og vilja fá að vera í friði með þær. Bandaríkjamenn drápu þúsundir Íraka, en eru svo að velta því fyrir sér hvort hrefna deyr á tíu sekúndum eða þrjátíu."
-- Konráð Eggertsson hvalveiðifrömuður í Fréttablaðinu í dag
Svo má auðvitað ekki gleyma því að Bandaríkjamenn eru duglegastir allra þjóða við að kála hvölum. Höfrungar festast villt og galið í túnfisknetunum þeirra. En það má auðvitað ekki tala um það, því auðvitað verður Kaninn að fá sína tuna sandwich.
Ef Bandaríkjastjórn væru samkvæm sjálfri sér þá myndi hún byrja á að setja viðskiptabann á sjálfa sig - fyrir að eiga efnavopn, sýklavopn og kjarnorkuvopn, brjóta mannréttindi þegna sinna, vera með leiðtoga sem var ekki kosinn af þjóð sinni, ráðast inn í önnur lönd sem ógna þeim ekki neitt til að stela olíunni, og svo síðast en ekki síst fyrir það versta af öllu - að drepa nokkra hvali.
15 ágúst 2003 ::: Hárkollur eru málið þessa dagana
Ég fór á myndina Pirates of the Caribbean á þriðjudaginn. Tók eftir því að allt yfirstéttarliðið í henni var með hárkollur. Það var nokkurs konar stöðutákn þess tíma, og ef þú varst ekki með hárkollu þá varstu ekki maður með mönnum. Að vísu var beibið í myndinni (það er alltaf beib í öllum myndum, ef kvenhetjan væri ekki beib myndu færri borga sig inn á myndina) ekki með hárkollu en ég held að það hafi aðallega verið til þess að hún myndi koma betur út sem beib. En allavega, hárkollur eru töff.
Nú á dögum eru hins vegar jakkafötin nokkurs konar stöðutákn yfirstéttarinnar. Maður er ekki maður með mönnum ef maður er þingmaður, embættismaður, toppstjórnandi, fjármálaspekúlant eða lögmaður og gengur ekki um í jakkafötum. Það yrði örugglega horft á mann svipuðum augum og "sir" án hárkollu í breska heimsveldinu ef maður myndi mæta í gallabuxum og fara að stýra eignum eða eitthvað álíka.
Þess vegna datt mér í hug - af hverju ekki að endurvekja hárkolluna? Finnst ykkur dómararnir og þingforsetinn í Bretlandi ekki töff? Það væri kannski erfitt að koma hárkollum í tísku en ég kann eitt ráð sem gæti virkað - verðleggja þær nógu andskoti hátt. Nýja sendingin af hárkollum í Sævari Karli, aðeins það besta á kr. 179.900. Þá hefði enginn efni á hárkollunum nema þeir sem ráða í þjóðfélaginu, og þar með eru þær orðnar fýsilegur kostur til að sýna hverjir mega sín betur, svipað og jeppar og laxveiðileyfi. Hinir, sem ekki eiga efni á hárkollu en eru samt í jakkafatastöðu (t.d. verðbréfadrengir) gætu bætt enn einu raðgreiðsluláninu við skuldahalann.
Mig dreymdi lítinn blautan draum í nótt. Mig dreymdi að ég, varnarmálaráðherra Íslands, stæði á svölum Alþingishússins ásamt forseta Íslands (ekki Ólafi Ragnari heldur einhverjum öðrum, man ekki hverjum). Á Austurvelli voru marserandi íslenskir, bláeygir hermenn, með vélbyssur og hjálma, og með skjaldarmerki Íslands á upphandleggnum. Síðan komu skriðdrekarnir og herbílarnir hver á fætur öðrum keyrandi niður eftir pósthússtrætinu, allir með bergrisanum (fangamarki íslenska hersins) á hliðinni. Kyrrðin er síðan rofin þegar þrjár F-15 orrustuþotur sem ég fékk að kaupa fyrir samtals 2 milljarða dollara frá Lockheed Martin fljúga lágflug yfir miðbæinn í oddastöðu. Mannfjöldinn á Austurvelli fagnar og klappar. Nokkrir kommúnistar með ljót skilti eru dregnir í burtu af lögreglunni og lamdir duglega. Allir elska varnarmálaráðherrann. En svo vakna ég aftur í mínu ömurlega, frumstæða, herlausa landi. Frekar leiðinlegt.
En hvað um það. Algjörlega þessu óviðkomandi, þá er hér mynd af uppáhaldsstjórnmálamanninum mínum (fyrir utan Sigurð Kára að sjálfsögðu):