Kaninn er manngerð sem verður sífellt algengari í vestrænum samfélögum og víðar. Kanar eru fjölmennir í enskumælandi löndum. Eins og nafnið kemur til kynna eru Kanar í miklum meirihluta í Bandaríkjunum, um 75-90% fólks þar í landi eru Kanar. Sumir kalla þá heimska Bandaríkjamenn en ég kýs að nota orðið Kani, þar sem það hefur breiðari skírskotun nú á tímum hnattvæðingar.
Kanar hafa orðið æ fjölmennari hópur á Íslandi undanfarin ár og áratugi, ekki vegna þess að þeir eru að flytja hingað frá öðrum löndum heldur vegna þess að stór hópur Íslendinga er smátt og smátt að breytast í Kana.
Kanar búa flestir í úthverfum eða smábæjum. Þeir vilja hafa mikið rými og þurfa að vera út af fyrir sig. Kaninn býr ekki í fjölbýlishúsi nema hann neyðist til þess. Hann vill helst ekki þurfa að sjá eða tala við nágranna sína, en þó búa nálægt (í góðri akstursfjarlægð frá) stöðum þar sem hægt er að nálgast vörur og þjónustu, eins og t.d. Spönginni eða Smáranum. Kananum hryllir við að búa í miðbæ Reykjavíkur. Þar býr skrýtið fólk sem Kaninn skilur ekki, þar er erfitt að fá bílastæði og ef maður fær bílastæði þá þarf maður samt að ganga spölkorn, og Kanar forðast eins og heitan eldinn að ganga.
Kanafjölskyldur eiga yfirleitt tvo eða þrjá bíla, stundum fjóra, allt eftir því hversu margir á heimilinu eru með bílpróf. Kaninn fer allra sinna ferða keyrandi og gæði þjónustuaðila sem hann skiptir við fara að stórum hluta til eftir því hversu gott er að fá stæði nokkur skref frá innganginum. Kaninn er alltaf einn í bíl, nema hann sé að keyra börnin sín í skólann, sem er yfirleitt í göngufæri frá heimilinu.
Kanar koma úr öllum þjóðfélagshópum. Sumir eru menntaðir, aðrir ekki. Sumir hafa vit í kollinum, aðrir ekki. En eitt eiga þeir þó sameiginlegt – þeir hafa frekar litla peninga á milli handanna frá degi til dags, ekki vegna þess að þeir þéna lítið (þeir vinna flestir 50-60 tíma á viku og þéna mikið), heldur vegna þess að þeir eyða svo andskoti miklu. Dæmigerður Kani er með 3-4 greiðslukort í veskinu og notar helst ekki reiðufé. Hann á mikið af nýtísku dóti sem er keypt á raðgreiðslum og er með á stefnuskránni að kaupa meira af slíku. Flestir Kanar keyra bíl á bílaláni. Kaninn er lítið að velta því fyrir sér hvaðan allt sem hann kaupir kemur eða hvernig það var framleitt. Það eina sem skiptir máli er að hann getur eignast það. Kanar eru stöðugt að leita leiða til að afla meiri tekna, því það er svo erfitt að lifa af laununum.
Eftirlætistómstundaiðja Kanans er að horfa á sjónvarpið. Um helmingur tímans sem er aflögu eftir vinnu fer í sjónvarpsáhorf, enda lítur Kaninn á slíkt sem skemmtilega, afslappandi og fræðandi iðju. Hinn helming tímans er yfirleitt kveikt á sjónvarpinu í stofunni, til að forðast það að missa af einhverju. Meðal-Kani er með um þrjú sjónvörp á heimilinu, þar af eitt í barnaherberginu. Kanabörn horfa líka mikið á sjónvarpið og spila tölvuleiki af miklum móð. Foreldrunum finnst það afskaplega þægilegt, því þá sleppa þau við að veita börnunum of mikla athygli og geta einbeitt sér að fullorðinsefninu í sjónvarpinu.
Kanar horfa ekki á aðrar kvikmyndir en Hollywood-myndir, og þar sem mikið er um slíkar myndir í kvikmyndahúsum landsins, fara Kanar oft í bíó. Kanar horfa alls ekki á evrópskar kvikmyndir, hvað þá kínverskar eða latnesk-amerískar, enda er bæði óþægilegt að þurfa að lesa textann og hlusta á eitthvað óskiljanlegt tungumál, og söguþráðurinn er illskiljanlegur Kananum. Kaninn hlustar á létta tónlist í flestum tilfellum, yngri kynslóðin er í FM og PoppTíví en sú eldri meira í popplögum sem hafa náð að sanna sig. Sumir Kanar eru þó rokkarar að eigin mati og hlusta á hljómsveitir eins og System of a Down, Korn og Limp Bizkit.
Kaninn borðar lítinn annan mat en þann sem þarf ekki að hafa til á eigin spýtur. Skyndibitamáltíð er sporðrennt nokkrum sinnum í viku, og þá gjarnan út um bílalúgu, til að hægt sé að borða með hraði í bílnum eða njóta matarins fyrir framan sjónvarpið. Þá daga sem ekki er farið á skyndibitastaði er yfirleitt höfð til tilbúin máltíð (t.d. frosin pizza) eða pöntuð pizza, og því skolað niður með 2-4 lítrum af gosi (eftir stærð fjölskyldu). Kaninn er afskaplega hrifinn af öllu sem er fljótlegt, ódýrt og bragðgott, enda lítill tími og orka til að standa í eldamennsku ef maður kann hana á annað borð. Kaninn borðar yfirleitt ekki mikið yfir daginn, nema hann fari á skyndibitastað í hádeginu. Hann bætir það upp með því að drekka gosdrykki og snæða snakk og sælgæti yfir sjónvarpinu á kvöldin.
Kanar eru flestir frekar þéttholda af ástæðum sem hægt er að rekja hér að ofan. Kanabörn eru mörg hver feit, enda drekka þau gos í skólanum fyrir vasapeningana og borða sælgæti á daginn, til viðbótar við það sem þau borða á kvöldin úr skápnum heima. Sum Kanabörn stunda íþróttir, sem heldur aukakílóunum að miklu leyti í skefjum. Það sama er ekki hægt að segja um foreldrana. Þeir vinna flestir kyrrsetuvinnu. Til að vinna gegn þessu uppgötvar Kaninn reglulega ýmsar leiðir. Suma hluta ársins eyðir Kaninn drjúgum tíma vikunnar inni á líkamsræktarstöð, þar sem hann lyftir lóðum og hleypur á hlaupabretti, og borðar mikið af svokölluðum próteindrykkjum, sem búnir eru til úr dufti. Aðrir Kanar sækja frekar í megrunarkúra ýmiss konar, en þegar átaki er lokið hlaðast kílóin jafnharðan á aftur.
Kaninn hefur ekki miklar skoðanir á stjórnmálum eða þjóðfélagsmálum. Hann heldur huganum frekar við praktísk viðfangsefni daglegs lífs. Hann kann þó ýmist að meta eða ekki að meta persónur úr stjórnmálum, t.d. George W. Bush og Davíð Oddsson. Kaninn hefur hins vegar mun meiri áhuga á öðru frægu fólki, t.d. kvikmynda- og sjónvarpsstjörnum. Kaninn les alltaf Séð&Heyrt þar sem næst til. Þegar Kanar hittast ræða þeir líka helst nýjustu afrek eða afglöp stjarnanna, þ.e. þegar þeir eru ekki að ræða um hluti sem hægt er að kaupa til að einfalda og glæða líf sitt.
Kaninn hefur jafnan stóra drauma um ríkidæmi og velgengni. Hann lítur á það sem æðsta takmarkið að eignast fullt af peningum, og öfundar fólk sem hefur náð langt í að sanka að sér efnislegum gæðum og er með flott starfsheiti, þó að hann viti að sjálfsögðu að þetta séu laun mikils erfiðis sem þessir einstaklingar hafa lagt á sig til að ná svona langt. Hann lítur björtum augum fram á veginn – hamingjan er rétt handan við hornið!