Mikið hefur verið rætt um breytta ímynd karlmennskunnar á undanförnum árum. Áður var það víst í ólagi ef karlmenn föðmuðu börnin sín og sýndu tilfinningar. Það þótti ekki karlmannlegt. Frekar átti maður að blóta og biðja konuna um bjór, og ef manni leið illa þá var helsta leiðin út að hengja sig. Eða þannig má skilja umræðuna. Það er auðvitað ágætis mál að þessi staðalmynd er á undanhaldi og mjúki maðurinn sé kominn inn. Mjúki maðurinn getur alveg verið ákveðinn og haldið stillingu sinni þegar á reynir, og jafnvel kunnað að bora í veggi og setja upp Windows. Hann er bara eins og hann er og er ekki feiminn við að sýna á sér hliðar sem brjóta gegn gömlum staðalmyndum.
Þessi "nútímavæðing" karlmannsins tekur á sig ýmsar myndir og það nýjasta er að hégómagjarnir menn eru farnir að njóta sín. Ljósabekkir eru ekki síður vinsælir meðal karlmanna en kvenna, og sumir eru farnir að raka af sér hin og þessi líkamshárin. Húðkrem eru að koma sterk inn hjá ákveðnum hóp. "Æðislegt" segja sumar konur, og tískuhús, snyrtivöru- og skartgripaframleiðendur fá dollaramerki í augun. Lífsstílsblöð (blöð fyrir óöruggt fólk sem vantar leiðbeiningar um hvað það á að kaupa og hvernig það á að klæða sig og innrétta íbúðirnar sínar samkvæmt nýjustu tísku) grípa þessa týpu á lofti og kalla hana "metrósexúal manninn". Gagnkynhneigða stórborgarmanninn sem hirðir húð sína og hár, fer í hand- og fótsnyrtingu og fitusog og vílar það ekki fyrir sér að ganga með rándýra skartgripi. David Beckham er helsta táknmynd þessa manns og hér á landi eru það menn eins og Friðrik Weisshappel, Heiðar snyrtir, Arnar Gauti og Jónsi í Svörtum fötum.
Eru þessir menn allt í einu orðnir fyrirmynd íslenskra karlmanna? Ég vissi það ekki. Ég hætti að fara í ljós fyrir tæpum tveimur árum og fann engan mun nema á veskinu og þeirri vissu að ég fæ ekki húðkrabbamein eða krumpaða húð fyrir aldur fram (talandi um að hirða um húðina..) Svo hef ég heldur aldrei rakað af mér bringuhárin, notað næturkrem, fengið mér gervineglur eða gengið með eyrnalokka. Nú koma líklega einhverjar lífsstílssneplaraddir og segja að ég sé bara hræddur um að vera vændur um samkynhneigð. Ég sé annað hvort fordómafullur eða með hommafóbíu, eða bæði. Þannig verð ég kerfisbundið hræddur af fegurðariðnaðinum til að sýna víðsýni mína með því að fara í "nose job" og ganga með tösku. Já, maður er víst hellisbúi ef maður er ekki hégómagjarn. Arnar Gauti segir það. Besta setningin í þessum hlægilega pistli í Fréttablaðinu í gær fannst mér þó þessi:
"Beckham er því sagður karlmaður framtíðarinnar þar sem hann stundar karlmannlega íþrótt og hikar ekki við að gera það í fjólubláum blúndunærbuxum af konunni sinni, auk þess sem hann er líklegur til að láta laga á sér hárið í hálfleik."