brjóstvörn sannleikans  

hvítt blogg


Heim Gamalt og gott Póstur
Hnakkus Vala Elísabet
Glöggið Raggi Mikki

29 september 2003 :::
 
Innflutt hugmyndafræði

Einkavæðing á almenningsrými í formi einkabílisma heldur sífellt áfram að eyða hverfinu og samfélaginu sem skilgreinir stórborgina. Stofnbrautaframkvæmdir, atvinnu-"torg", verslanamiðstöðvar - allt þetta ýtir undir upplausn hins eiginlega samfélags og fletur út hið staðbundna. Allir staðir verða eins og allir aðrir staðir. Samfélagið verður að vöru - rólyndu verslunarþorpi undir stöðugri smásjá eftirlitsmyndavéla. Lönguninni fyrir samveru er síðan fullnægt annars staðar - í gegnum uppákomur sem okkur eru seldar í glansumbúðum. Sjónvarpssápur sem herma eftir götunni og torginu sem steinsteypan og kapítalisminn eru að útrýma. Raunverulega gatan er geld. Staður til að ferðast eftir en ekki til að vera á. Tilvist hennar er eingöngu til að styðja við eitthvað annað - hvort sem það er búðargluggi, auglýsingaskilti eða bensíntankur. -- Stefnuyfirlýsing Reclaim the Streets London

Jónas, sem ég er yfirleitt sammála, er heldur betur að falla í áliti hjá mér. Í einum af hugleiðingum sínum heldur hann því fram að þeir sem vilja manneskjulegri Reykjavík , með fólki á götunum, séu "fangar innfluttrar hugmyndafræði". Af skrifum hans má álykta að Íslendingar séu hálfgerðir Bandaríkjamenn í eðli sínu - fólk sem yfirgefur hús sín út um bílskúrsdyrnar og finnst ekkert að því að keyra í 20 mínútur til að ná sér í brauð og mjólk. Það er nefnilega svo að einkabílisminn er engin sjálfsprottin hugmyndafræði - hún er sprottin upp af lobbýisma bandarískra olíu- og bílaframleiðenda sem lögðu kerfisbundið niður almenningssamgöngur á eftirstríðsárunum til að gera fólk háð bílum og bensíni. Þessi hugmyndafræði hefur síðan átt upp á pallborðið hjá Íslendingum af einhverjum ástæðum - kannski út af veðrinu, kannski af því að Sjálfstæðisflokkurinn var í meirihluta í borgarstjórn, kannski út af gegnumgangandi strjálli byggð og kannski af því að Reykjavík fékk til skamms tíma aldrei neitt fé til samgöngumála ("þjóðvegur í þéttbýli" er frekar nýtt hugtak).

Ætli ég hafi ekki flutt inn mínar hugmyndir um manneskjulegt borgarsamfélag eftir tvö sumur í erlendum stórborgum, Vín og Kaupmannahöfn. Bæði skiptin þegar ég kom heim sló það mig hvað Íslendingar leggja mikið upp úr bílunum sínum og hvað götulífið í Reykjavík er að mörgu leyti frumstætt. Flestar aðrar evrópskar borgir (líka þar sem er stundum vont veður) sjá sóma sinn í að halda úti einföldu og öflugu almenningssamgöngukerfi sem gerir það að verkum að aðeins þeir sem annað hvort þurfa bíl (t.d. barnafjölskyldur) eða hreinlega elska bíla keyra um á einkabíl. Í borg eins og Reykjavík væri auðveldlega hægt að gera strætó og lestir að aðalvalkosti einstaklinga og einhverju sem kæmi í staðinn fyrir bíl númer 2 hjá fjölskyldufólki. Þó að bara 20% vinnandi fólks myndu nýta sér slíkt kerfi (á móti 4% í dag) þá myndi það leysa alla umferðarhnúta á Reykjavíkursvæðinu.

Mig langar ekki til að búa í borg sem hefur alla ókosti borgar en enga af kostunum. Ég fyllist innilokunarkennd þegar ég lít yfir flæmi bílastæða og mislægra gatnamóta. Og í þjóðfélagi þar sem stórfjölskyldan er svo gott sem dauð er ekki gott að búa þar sem fáir kannast við mann eða hafa ábyrgðartilfinningu gagnvart manni. Það sem fólk fær út úr því að búa í borgum er snertingin við mannlífið, snertingin við orkuna sem fylgir því að þvælast um stræti og torg og vera innan um annað fólk. Það er það sem borgarbúar fá í staðinn þegar þeir gefa náttúruna upp á bátinn með því að flytjast á mölina. Þess vegna er ljótt að taka það frá okkur með því að taka sífellt meira land undir verslanamiðstöðvar og stofnbrautir.



::: hent inn 22:56 :::


24 september 2003 :::
 
Viðauki A

Ágætis viðbót við pistil mánudagsins: Maðurinn sem hataði strætó.

Það fyndna við pistlaskrif mín á mánudaginn var að Strætóhatarinn og konan hans voru ekki enn búin að setja inn sína pistla áður en ég sauð saman minn og sendi hann inn á hvíta bloggið.

Ef það borgaði sig ekki fyrir fyrirtæki að reka flugfélag á Íslandi, ætli frjálshyggjumenn myndu þá tala um einkaflugvélina sem "þarfasta þjóninn" ?

::: hent inn 21:02 :::


22 september 2003 :::
 
Strætisvagnar, sundlaugar og frelsi

Til hamingju með bíllausa daginn. Það er frekar auðvelt fyrir mig að keyra ekki í dag þar sem hægri handleggurinn er ónothæfur. En ég mæli með því við aðra að endurnýja kynni sín við strætó, það er frítt í dag.



Eins og venjan er þennan dag þeysast pólitískir öfgamenn fram á ritvöllinn og halda því fram fullum fetum að almenningssamgöngur eigi ekki rétt á sér. "Röksemdafærslan" gengur aðallega út á það að farþegi í strætó með 6,7 farþega mengi meira en farþegi í Toyota Yaris með 2,2 farþega (þess má geta að meðalfarþegafjöldi í bíl í Reykjavík er 1,2).

Samkvæmt þessum rökum ætti ég að menga meira ef ég hoppa upp í strætó hjá Þjóðleikhúsinu til að fara í Kringluna, sem keyrir þangað hvort eð er heldur en ef ég starta bílnum mínum og keyri á honum í Kringluna. Svo menga ég líka minna ef ég keyri einn á bílnum mínum (sem er nýlegur smábíll) út í sveit heldur en ef ég fæ að fljóta með frændfólki sem er hvort eð er að fara á sama stað á jeppanum sínum. Einmitt.

Það sem raunverulega liggur að baki er pirringur og gremja þessara manna út í allt sem heitir "almennings". Allt á að vera í einkaeigu. Og ef ekki borgar sig fyrir einstakling að halda úti bisness með einhverju fyrirbæri, t.d. strætó, þá á það ekki rétt á sér. Þetta fólk lifir í einhverjum öðrum heimi en við hin. Við hin teljum einmitt að opinberir aðilar eigi að halda úti þjónustu sem ekki borgar sig fyrir aðra að reka. Dæmi um slíka þjónustu er almenningsbókasöfn, sundlaugar, holræsi, ljósastaurar, gangstéttir, bekkir, útivistarsvæði, íþróttahús, félagsmiðstöðvar, almenningsgarðar og já - strætó. Þetta er allt saman hluti af því að búa í siðuðu samfélagi.

Ég skil annars ekki alveg hvað er svona óhagkvæmt við að gera hlutina saman. Gott strætó- og lestakerfi (sem er alls staðar niðurgreitt) sparar flestum evrópskum borgum gríðarlegar fjárhæðir í lagningu stofnbrauta og mislægra gatnamóta. Sú leið sem Íslendingar hafa farið, að hafa almenningssundlaugar í hverri sveit, sparar fólki það að hugsa út í að fá sér rándýra einkasundlaug og gerir öllum kleift að komast í sund fyrir málamyndagjald. Almenningsbókasöfn veita öllum aðgang að þeim fróðleik sem þeir girnast.

Og þetta er allt saman hið besta mál. Ég tel góða almenningsþjónustu vera miklu mikilvægari fyrir frelsi einstaklingsins heldur en það að leggja hana niður eða gera hana að neysluvöru, enda er frjálshyggja ekkert nema hugmyndafræðileg útgáfa af þrýstingi atvinnulífs sem heimtar sífellt lægri skatta, færri reglur og fleiri tækifæri til að græða á fólki.

::: hent inn 10:59 :::


19 september 2003 :::
 
Svokallaðir friðarsinnar

Hann Hnakkus er með tvö þörf innlegg í umræðuna um siðferðiskennd sjálfskipaðs varnarmálaráðherra Íslands. Þar kemur hann upp um þá staðreynd að einn af uppáhaldspistlahöfundum ráðherrans er snarbilaður fasisti. Ann Coulter er ágætis dæmi um að illmenni raunveruleikans eru ekki fúlskeggjaðir ungir karlmenn með túrban heldur óskaplega viðkunnanlegt og myndarlegt fólk. Hér má líta mynd af dömunni:



En hvað um það. Hér er mín greining á málinu:

1) Friðarsinnar voru á móti öllu hernaðarbrölti og ofbeldi stórveldanna á tímum Kalda stríðsins.

Ann Coulter og Björn Bjarnason voru á móti hernaðarbrölti og ofbeldi Sovétríkjanna, en studdu hernaðarbrölt og ofbeldi Bandaríkjanna á tímum kalda stríðsins (Víetnam, Grenada, Panama + fjölmörg blóðug valdarán fyrir tilstuðlan CIA).

2) Friðarsinnar eru á móti öllu ofbeldi, og þá sérstaklega því að varpa sprengjum á saklaust fólk, t.d. börn, konur og gamalmenni. Einnig telja friðarsinnar það ekki verjandi að gera innrás í önnur ríki, drepa 16 þúsund manns og örkumla tugi þúsunda, hernema ríkði og kalla það síðan "frelsun".

Ann Coulter og Björn Bjarnason eru á móti öllu ofbeldi, og þá sérstaklega því að varpa sprengjum á saklaust fólk, ef ofbeldinu er beint gegn Vesturlandabúum. Ann Coulter og Björn Bjarnason eru hins vegar hlynnt ofbeldi, og telja að stundum hreinlega verði að varpa sprengjum á saklaust fólk, ef árásaraðilinn er Vesturlönd og fólkið sem varpað er sprengjum á er hörundsdökkt.

3) Friðarsinnar telja það vel mögulegt að koma upp alþjóðlegu öryggiskerfi til að hindra vel flest stríðsátök í heiminum, minnka hernaðarútgjöld niður í brot af því sem það er í dag og beina peningunum í þarfari hluti eins og að fyrirbyggja þá eymd og volæði sem ýtir mönnum út í öfgastefnur og hryðjuverk. Til þess þarf aðallega vilja eina risaveldisins sem er eftir í heiminum í dag.

Ann Coulter og Björn Bjarnason vilja hins vegar auka enn frekar hernaðarútgjöld Vesturlanda til að "mæta nýjum ógnum" og gera "fyrirbyggjandi árásir" á þau ríki þar sem hugsanlega, mögulega gætu leynst hryðjuverkamenn eða hættuleg vopn. Hins vegar mega þessar reglur alls ekki eiga við um Bandaríkin, þau skulu fá að eiga sín efna-, sýkla- og kjarnorkuvopn og jarðsprengjur og reka skóla fyrir hryðjuverkamenn. Ef einhver mótmælir þessu síðan þá er hann kallaður föðurlandssvikari og gæti endað hlekkjaður í búri í herstöð á Kúbu.

::: hent inn 19:40 :::


17 september 2003 :::
 
Svar við getrauninni

Rétt svar átti Þóra (Kjarval?) en svarið er heimurinn ef hann væri eyja með 100.000 íbúa.

::: hent inn 12:05 :::


15 september 2003 :::
 
Getraunin

Spurt er um eyríki.

Ríkið er eitt það fjölskrúðugasta í heiminum. Á þessari eyju búa um 100 þúsund manns í 210 byggðarlögum.

16 þúsund af íbúunum eru hvítir, 12 þúsund svartir og 58 þúsund af asískum uppruna. Aðeins þúsund íbúar eru með háskólagráðu og 10 þúsund manns, flestir hvítir, njóta 80% af auðæfunum.

Stærstu borgir landsins eru á austurströndinni og hafa samtals 36 þúsund íbúa sem flestir eru bláfátækir. Höfuðborgin, sem er á vesturströndinni, hefur 6000 íbúa sem flestir lifa í allsnægtum. Í henni eru bækistöðvar lögreglunnar og Ríkisbankans. Þar koma líka fulltrúar hinna bæjanna saman og álykta um hin ýmsu mál. Þó íbúar höfuðborgarinnar viti varla aura sinna tal vilja þeir ekki gefa með sér í því skyni að leysa vandamál eins og þau að helmingur íbúa landsins er vannærður og 130 börn deyja árlega úr hungri og auðlæknanlegum sjúkdómum. Höfuðborgin er á móti því að leggja fjármuni í að tryggja rennandi vatn til handa þeim 67 þúsund manns sem hafa það ekki og íbúarnir þar telja að það sé hlutverk góðgerðarsamtaka.

Þrátt fyrir að höfuðborgarbúar séu tregir við að borga skatta þá gera þeir það upp að vissu marki og stærstur hluti skattanna fer í hina gríðarlega öflugu lögreglu borgarinnar. Stjórnendur borgarinnar hafa talið íbúunum trú um að glæpamenn frá fátækari landshlutum ógni öryggi fólksins.



Ástandið í fátækari landshlutunum er skelfilegt, og þá sérstaklega í suðurhlutanum þar sem hungursneyðir koma upp árlega. Eins og áður sagði eru bæirnir vart tengdir við vatn og rafmagn, ólæsi er landlægt og þeir sem hafa vinnu starfa myrkranna á milli fyrir fyrirtæki frá höfuðborginni og öðrum ríkum bæjum fyrir laun sem ekki er hægt að draga fram lífið á.

Til að bæta gráu ofan á svart þá skulda fátæku bæirnir og þorpin flest Ríkisbankanum himinháar fjárhæðir, og um þriðjungur af tekjum sveitarsjóðanna fara beint í að borga skuldir til Ríkisbankans.

En af hverju flytur fátæka fólkið ekki bara til stóru, ríku bæjanna? Af því að það er búið að girða ríku bæina tryggilega af og það þarf meira að segja sérstakt leyfi til að ferðast þangað. Þeir fáu sem ná að setjast að í ríku bæjunum og fá leyfi til að vinna enda yfirleitt í illa launuðum og/eða lélegum störfum, t.d. við skúra undan ríka fólkinu, þjóna því eða jafnvel í vændi.

Lögreglan í höfuðborginni tekur sér stundum það bessaleyfi að ráðast inn í þorp í fátækari landshlutum til að handtaka glæpamenn og skýtur þá á allt sem fyrir verður og jafnar byggingar við jörðu. Margir örkumlast og verða heimilislausir, og fjölskyldur þeirra og vinir gæla við þá hugmynd að smygla sér inn í höfuðborgina bara til að myrða nokkra íbúa þar og skemma eitthvað.

Nokkur hundruð manns í ríku bæjunum nota frelsi sitt til að berjast fyrir því að Ríkisbankinn gefi eftir skuldir fátækustu bæjanna, að fátæklingarnir þurfi ekki að hírast við ömurlegar aðstæður, og börnin þar þurfi ekki að þjást eða deyja. En heilu félögin í ríku bæjunum hafa myndast um þá hugmynd að ríku bæjunum og ríka fólkinu beri ekki að gefa með sér. Flestir í ríku bæjunum eru aðallega uppteknir við að leita sér að fróun í lífinu í formi lúxusvarnings og hafa engan tíma til að hugsa um vandamál hinna.

Hvaða ríki er þetta? Svarið í kommentakerfinu!

::: hent inn 11:50 :::


10 september 2003 :::
 
11. september hugvekjan

Íslamskir hryðjuverkamenn hafa það markmið að hræða fólk. Markmið þeirra er að hræða fólk og ráðamenn á Vesturlöndum til að hlusta frekar á þá, til að hætta að gera hluti sem þeim líkar ekki.

Hræðsla er hins vegar aðallega gott stjórntæki fyrir þá sem ráða. Þess vegna hefur hryðjuverkamönnum tekist að hræða Bandaríkjamenn til fylgilags við fávita á borð við George W. Bush og últra-hægristjórn hans.

Eigum við að klappa fyrir þeim í tilefni dagsins?

::: hent inn 09:21 :::


07 september 2003 :::
 
Hausinn virkjaður

Ég fór í skoðunarferð um virkjanasvæðið við Kárahnjúka í gær. Það neyddi mig aðeins til að hugsa um þetta mál. Ég er búinn að sjá og heyra tugi umræðna um þessa virkjun þar sem menn hatast hver út í annan en aldrei komist að neinni alvöru niðurstöðu. En ég held að ég hafi komist að henni í gær.



Það sem stendur upp úr hjá þeim sem eru hlynntir virkjuninni er það að þessi framkvæmd er að gera og mun gera góða hluti fyrir Austurland. Það er stóri plúsinn. Ég kaupi ekki þann málflutning að það eigi að virkja alls staðar þar sem það er hægt, þegar það er hægt. Þá gætum við alveg eins virkjað Dettifoss. En Kárahnjúkavirkjun er ekkert ósvipuð öðrum virkjunum - þarna fer stór spilda af öræfum undir vatn, reyndar stærri en áður. Þetta svæði er engin sérstök náttúruperla miðað við það sem við Íslendingar eigum.

Sem sagt, þetta er gríðarleg lyftistöng fyrir Austurland og þessi virkjun er ekki verri en aðrar virkjanir, bara stærri. Hin rökin nenni ég ekki að hlusta á, eins og t.d. að vinstri grænir séu á móti öllum framförum.

Á móti kemur að ég er í prinsippinu á móti því að fórna náttúrunni fyrir mengandi stóriðju. Hálendið er eitt það magnaðasta sem Íslendingar eiga og ég er á því að það eigi að gera sem stærstan hluta þess að þjóðgarði. Og ég er ekkert sérstaklega hrifinn af vinnubrögðunum sem voru viðhöfð í tengslum við þetta - t.d. er ég á því að starfsemi Impregilo og Alcoa sé að einhverju leyti skipulögð glæpastarfsemi og sorglegt að sjá íslenska ráðamenn taka þeim sem einhvers konar hetjum. Ef virkjunin væri lyftistöng fyrir Reykjavík eða annað sveitarfélag sem hefur nóg af öðrum atvinnutækifærum, eða ef svæðið sem fer undir vatn væri náttúruperla eða friðland (eins og t.d. Þjórsárver) þá væri ég á móti þessu.

Ég er sem sagt hlynntur þessum framkvæmdum - með smá semingi. Reyndar tel ég að það séu mun verri umhverfisvandamál í heiminum heldur en það að nokkur prósent af hálendi Íslands sé að fara undir vatn. Eyðing fornra skóga, jarðvegseyðing, eyðing kóralrifja, gróðurhúsaáhrif.. þar ættu ástríðufullir umhverfissinnar að taka til hendinni.

En takið nú endilega til hendinni þið grínpís-hatarar og öfga-umhverfissinnar (sem fæstir hafa komið á hálendið yfirhöfuð..) og hakkið mig í ykkur!

::: hent inn 18:46 :::


04 september 2003 :::
 
Æi viljið þið hjálpa okkur!

Núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna stendur í því þessa dagana að slá öll fyrri met í heimsku.

Fyrst gerir hún innrás í og hernemur land í andstöðu við friðarsinna heima fyrir og nokkurn veginn alla utan Bandaríkjanna, nema etv. Björn Bjarnason og Sigurð Kára.

Síðan þegar það kemur í ljós að þeim er ekki tekið sem frelsurum og að hernámið kostar pening, þá allt í einu vilja þeir að önnur ríki - líka þau sem neituðu að láta bendla sig við innrásina - láti þá fá peninga og mannafla til að halda hernáminu áfram.

::: hent inn 14:58 :::


03 september 2003 :::
 
Miðvikudagshugvekjan

Ég er kaþólikki.



Ég veit að Guð elskar allt mannkynið skilyrðislaust.

En ég óttast reiði Guðs, ég þarf að mæta í kirkju einu sinni í viku, ég þarf að biðja bænirnar mínar daglega og játa syndir mínar reglulega, ég má ekki stunda kynlíf utan hjónabands og alls ekki blóta.

Ég veit að Jesús elskar okkur og fyrirgefur syndir okkar.

En ég skammast mín fyrir hugsanir mínar, ég er með samviskubit, ég þarf að þjást og bæta fyrir syndir mínar og ég fer örugglega til helvítis ef ég verð ekki hlýðnari.

Ég veit að allir menn eru jafnir fyrir Guði.

En prestar, biskupar, dýrlingar og páfinn eru samt jafnari en ég, og þeir sem tilbiðja, dýrka og óttast Guð komast frekar til himnaríkis. Þeir sem aldrei læra um Jesú, þeir sem fremja sjálfsmorð, hommar, heiðingjar og syndarar fara allir beint til helvítis.

Svona í lok hugvekjunnar vil ég benda á myndina Magdalene Sisters sem verður á breskum bíódögum í Háskólabíó út næstu viku.

::: hent inn 14:24 :::


01 september 2003 :::
 
Meira um glæpamenn

Við skulum ekki halda að nokkuð eigi eftir að breytast. Úr hádegisfréttum RÚV:

Bensín hækkar í verði um 2 krónur og 50 aura á lítrann hjá öllum olíufélögunum í dag. [...] Hækkun olíuverðs á heimsmarkaði skýrir hækkunina auk þess sem gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadollara hefur lækkað.

Við erum reyndar ennþá með svipað bensínverð og þegar dollarinn var um 110 krónur, en það hlýtur nú að vera einhver góð ástæða fyrir því?

::: hent inn 13:12 :::




Powered by Blogger