29 ágúst 2002 :::
Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með myndina sem við horfðum á í Virkinu á þriðjudagskvöld, norsku kómedíuna Elling. Hún veitir manni innsýn í heim geðsjúkra, einfeldninga og furðufugla en það stoppar mann ekki frá því að veina úr hlátri á köflum. Fyrir Elling er það að ganga yfir gólfið á veitingastað svipað og fyrir venjulegan mann að fara á Suðurpólinn...
Að sjálfsögðu hafa Hollywood-menn komist á snoðir um snilldina, enda naskir á að þefa uppi allt sem er skemmtilegt og söluvænt (myndin mokaði amk. inn í Noregi). Meira að segja búið að ráða hinn ofmetna Kevin Spacey í aðalhlutverkið. Reikna með að sú mynd verði mjög svipuð, bara með Hollywood-stjörnum og tökur, klippingar og slíkt í Hollywood-stíl. Og þessi 50% Íslendinga sem geta ekki horft á annað en Hollywood-myndir eiga eftir að dást að því hvað konseptið er nú frumlegt...
En Elling fær 8,7 hjá mér.. slagar hátt í ágætiseinkunn.
...
Skoðið Hlunkinn!
27 ágúst 2002 :::
Ég var að finna botninn á blogginu. Eitthvað fífl sem kallar sig hroki og þorir ekki að segja til nafns. Svo sem ekki óeðlilegt miðað við skoðanir hans, en ef hann hefur í alvörunni þessar skoðanir þá ætti hann nú alvarlega að íhuga það að láta líta á sig.
...
Sat annars í fyrirlestrum í allan morgun og þurfti ekki nema 2 kaffibolla til að halda mér vakandi. Þessi tala mun eflaust hækka þegar líða fer á þessa síðustu önn mína í HR. Ekki síst í ljósi þess að námskeiðin heita Stærðfræðileg greining og Forritunarmál.
26 ágúst 2002 :::
Ansi viðburðarík helgi er að baki. Á föstudagskvöld kom saman hópur af fólki sem kynntist í sandkassanum snemma á 9. áratugnum. Fengum okkur frostpinna (fullorðinsútgáfuna) og bjór, rifjuðum upp gamla tíma og töluðum um mömmur okkar. Ég og Bjössi bróðir vorum þeir einu sem lögðum í bæinn (klukkan 4, úff.. ) .. á Hverfisbarinn þar sem dyraverðirnir voru með einhverja rauða borða á upphandleggnum, skemmtilega ósmekkleg áfengisauglýsing. Litli bróðir var fljótur að sjá að þarna voru menn að hafa nasismann í flimtingum, og spurði dyravörðinn hvort hann væri nasisti. Hef lúmskan grun um það, því honum var hent út.
...
Á laugardeginum var svo ansi skrautleg afmælisveisla í Virkinu. Menn komu og fóru, en það fór eins og alltaf að hörðustu boltarnir urðu eftir og fengu fyrir vikið aukaskammt af bollunni sem var í boði hússins, eftir að við hringdum í fröken Dominos og pöntuðum 8 lítra af gosi í viðbót (og lítinn skammt af brauðstöngum, til að ná upp í lágmarkspöntun). Fórum ekki í bæinn fyrr en um 3 og gott ef við hittum ekki Betu rokk í fullum camouflage-skrúða, dansandi stríðsdans. Kíktum svo á Kaffi Sólon, sem er bara Hús málarans með smá breytingum. Nokkuð skondið samt að liðið sem maður hitti á Málaranum áður en hann varð sveittur og þreyttur var mætt aftur á Sólon hinn seinni. (gott að yfirborðskennda snobbliðið sem stundaði Sólon fyrri var ekki mætt aftur, hverjir voru hvar-gengið, Guðlaugur Þór og gamla stúdentaráðshyskið).
...
Pizzurnar í pizzaturninum á Lækjartorgi eru annars alveg fáránlega góðar. Veit ekki hvort það er vegna ástandsins sem maður er í þegar maður borðar þær. En konseptið er ótrúlega skondið. Bara 12" pizzur með pepperoni og gos, og bara opið þegar fólk er á djamminu.
...
Ég fékk þó nokkrar afmælisgjafir og kann mönnum bestu þakkir. Meðal annars Leoncie-diskinn (brenndan), klámmara á VCD, golfkylfur, Paul Auster-skáldsögu og síðast en ekki síst frumraun hljómsveitarinnar Leaves (í boði Rebekku og Þórhildar takk stelpur!) - alveg mögnuð plata. Þessir drengir eru að slá hljóðlega í gegn í útlandinu og eru ekkert að hæpa sjálfa sig upp hérna heima eins og ýmsir ónefndir aðilar. Minna á Coldplay, Radiohead, og gott ef ekki Suede þegar þeir voru upp á sitt besta (fyrir slagaraskífuna Coming Up) - en persónulega finnst mér Leaves skjóta þeim ref fyrir rass (veit reyndar ekki með Radiohead... en.. ). Þeir eru komnir með dreifingarsamning við Warner-mafíuna og ég treysti þeim til að verða heimsfrægir og vonandi halda áfram að gera góða hluti (lesist: fórna ekki listrænum metnaði til að selja meira).
23 ágúst 2002 :::
Freistaðist til að bæta einum diski í körfuna í síðustu amazon-pöntun. Þessum hér:
Magnaður gripur, nokkurs konar bræðingur af hip-hoppi, diskói og sýrupoppi. Frægast er eflaust lagið Frontier Psychiatrist ("this boy needs therapy"). Vex við hverja hlustun! Verðsamanburður: Amazon 2200 kr. (hingað kominn með öllum sendingarkostnaði, vaski og tolli), Skífan 2600 kr. Á hvaða plánetu býr Skífan?
...
Kláus kom formlega saman í gær í fyrsta skipti í langan tíma. Ákváðum að hafa aukafund í september þar sem brennivín og eiginkonur verða leyfðar (í akkúrat þessari mikilvægisröð). Burkni er búinn að lofa bleikri hommakokkteilastemmingu og ég treysti honum til að standa við loforðið!
Menn höfðu misjafna sögu að segja. En ég ákvað að athuga málið og brá mér á Maður eins og ég í gær.
Í stuttu máli sagt þá skemmti ég mér ágætlega. Húmorinn er ekki ósvipaður þeim í Íslenska draumnum og gengur að mörgu leyti út á að gera grín að íslenskum plebbisma. Þó fannst mér Draumurinn skemmtilegri og heilsteyptari. Myndin er dálítið upp og ofan en á sína spretti. Persónusköpunin og leikurinn er sterkasta hlið myndarinnar, og mér skilst að leikararnir hafi fengið nokkuð frítt spil. Varð fyrir smá vonbrigðum með Jón Gnarr, en nafnarnir Þorsteinn Guðmundsson (óákveðna gólfmottan og yfirmaðurinn) og Bachmann (hvatvísi geðlyfjaneytandinn) lyfta myndinni á æðra plan.
Væmnin tekur ekki mikið af tíma myndarinnar, en í þau skipti sem hún er fyrir hendi er hún gjörsamlega yfirþyrmandi og beinlínis pínleg (kannski átti þetta að vera fyndið?) Niðurstaða: Fín skemmtun og góður húmor en væmnar senur og skrýtnar artí-fartí þagnir draga hana niður. Einkunn: 6,9.
21 ágúst 2002 :::
Ég er búinn að vera að reyna að selja bílinn minn undanfarna 2 mánuði. Ætla að neita mér um þennan munað (bý og vinn í 101) og nota peningana í annað. Var að sýna tveimur strákum hann í gær, sem notuðu öll trixin í bókinni til að keyra verðið niður fyrir komandi tilboð:
"Ég myndi staðgreiða hann, en ég veit ekki alveg hvað ég get borgað mikið"
"Það þarf að fara að skipta um tímareim og það kostar 30.000"
"Lakkið er nú ekkert spes"
"Hvaða hljóð er þetta?"
En ég bíð spenntur eftir tilboði.. blankheitin munu heyra sögunni til og minimalistinn í mér blómstra.
20 ágúst 2002 :::
Jæja, áskorun minni um komment var vel tekið. Kíkti svo í gestabókina áðan og þar segir Rebekka að ég hafi verið fullur á laugardaginn. Heyrðu, það endar nú með að ég loka á þessa gestabók ef menn ætla að vera með svona rógburð og lygasögur. Svo segist hún kunna sögu um mig.. hmm.. ég man nú eftir öllu.
...
Mikið ógurlega er ég kominn með leið á sjónvarpi. Kannski er það bara sökum hörmulegrar dagskrár. Rosalega hlýtur manni amk. að þurfa að leiðast til að nenna að liggja yfir þessum þáttum á Skjáeinum um miðaldra karlmenn og endursýningu nr. 3 á Hjartslætti í strætó. Ætli allt skemmtana- og menningarlífið í Reykjavík þessa dagana sé orsök eða afleiðing þess að sjónvarpið er bókstaflega ömurlegt? Ætli það sé ekki bæði. En maður er samt aðeins farinn að skilja þá sem voru á móti frjálsu útvarpi á sínum tíma. Þetta voru hugsjónamenn sem sáu það sem framundan var - pöpulinn breytast í slefandi sófarottur, étandi Doritos og drekkandi 7up. Einn kostur við þetta samt - það er skárra að 14 ára unglingar horfi á Kana berja hvern annan í spað á skjánum á föstudagskvöldum heldur en að þeir fari sjálfir niður í bæ og geri slíkt hið sama.
...
Mætti með Rímnamínið í vinnuna í dag og ætlaði að bæta við mp3-safnið. Tölvan mín er farin að virka sem nokkurs konar glymskratti hérna í geimskipinu og ef ég slekk á henni í hálftíma er hálf bókhaldsdeildin mætt niður til mín með blóðhlaupin augu af fráhvarfseinkennum. En því miður var diskurinn læstur. Er einhver sem getur sagt mér nákvæmlega hvernig á að brjóta þetta upp (var ekki hægt að tússa á þetta eða e-ð álíka??)
19 ágúst 2002 :::
Var að skipta um commentakerfi og nota núna haloscan, enda var hitt draslið alltaf niðri eða óheyrilega hægvirkt. Endilega kommentið.
Góða menningin í nótt. Um leið og menningarnótt var blásin af fengu allir fantar bæjarins útrás fyrir ofbeldishneigðina, eftir að hafa haldið aftur af sér í kurteisisskyni á meðan formleg dagskrá stóð enn yfir. Djöfuls hvíta hyski. Það ætti að merkja svona lið. Láta þetta ganga í neonbleikum jökkum eða vestum sem stendur á "ofbeldismaður" svo við hin getum sneitt hjá þeim. Og hvað var með lögguna, er hún ennþá í yfirvinnubanni? Var ekki hægt að fylgjast með nokkrum götum í nokkra klukkutíma?
Sjálfur missti ég af allri dagskránni, enda upptekinn við að sulla í tveimur partýjum í Vesturbænum. Leiðast þótti mér að missa af Rúnkinu í garðinum á Sirkus. Seinna partýið var rýmt kl. 1 og þá fyrst var farið í bæinn. Var mestallan tímann frekar skuggalegur inni á skemmtistöðum en síðan hélt Hnakkvirkið eftirpartý sem stóð til 7, og heimabruggið var ekki sparað.
Má annars til með að mæla með Laugarásvídeó. Vídeóleigur landsins hafa þynnst verulega út síðustu ár og nú er svo komið að þetta heitir allt Bónus-Snæland eða eitthvað álíka hvítt, og fyrir utan nokkrar nýjar myndir þá er erfitt að finna nokkuð áhugavert. Eintóm meðalmennska og effemm-kúltúr. Laugarásvídeó er sannkölluð vin í eyðimörkinni - með nýjum myndum, klassískum myndum, költmyndum, splattermyndum, mesta DVD-úrvali landsins, 300 Star Trek-spólum og öllu gæðasjónvarpsefni sem nokkurn mann gæti dreymt um (Sopranos, South Park, Family Guy, Frasier..). Leiga sem þorir að vera öðruvísi og einfaldlega betri. Svo selja þeir líka belgískt súkkulaði sem fæst hvergi annars staðar.
Fór edrú að sofa í gær. Ansi langt síðan maður eyddi föstudagskvöldi í annað en sukk og vitleysu. Að vísu fór ég með strákunum í partý, og það var alveg merkilegt að þurfa að halda aftur af sér. Er annars svo vanur að vera í fíling í partýjum að ég gleymdi því að ég væri edrú og var bara samt í fíling. Kannski maður ætti að stunda meira af þessu. Vera driver og svona.
Annars verður ræst út í 10 km hlaupinu eftir um 50 mínútur. Ég sit hér sallarólegur og sötra mitt trópí, enda í seilingarfjarlægð frá mannhafinu. Strákarnir eru að sofa úr sér, annar í einhverju ókunnugu rúmi, hinn hérna heima. Snorri ætlar að rölta með.. ég á eftir að sjá það gerast. A.m.k. er stefnan tekin á sund eftir hlaupið. Síðan verður maður menningarlegur eins og flestir aðrir. Að vísu frekar skítt að missa af allri þessari góðu dagskrá til að geta djúsað. En þetta er gjaldið sem maður greiðir fyrir að vera hvítur...
16 ágúst 2002 :::
Rakst þetta á vef UVG, óvenju snyrtileg samantekt á því sem flestir í heiminum (nema heilaþvegið hvítt rusl) eru að hugsa í dag...
Svívirðileg mannréttindabrot verða að gleymast ef ,,réttir aðilar” eru á ferð. Á meðan er reynt að selja almenningi að Vesturveldin, með Bandaríkin í broddi fylkingar, séu að hreinsa púkana í heiminum og koma á nýrri veröld réttlætis. Að baki þessarri blekkingarmynd hvílir sú staðreynd að helsta einkennið á stríðinu gegn hryðjuverkum er réttlæting voðaverka fyrir mjög óljósu markmiði, stríðinu gegn hryðjuverkum.
Stinnu geirurnar úr Vesturbænum mættu eldhressar í vínsmökkun í gær. Af einhverjum ástæðum hvarf kvefið svona rétt á meðan smökkuninni stóð, en þegar ég vaknaði og ætlaði í vinnuna í morgun var það verra en nokkru sinni fyrr. Slím í öllum göngum og þar fram eftir götunum. Þannig að í dag ætla ég að drekka grænt te og úða í mig ólífulaufi (undraefni gegn öllum sýkingum) í dag og hreyfa rassgatið eins lítið og hægt er.
Þetta kom upp á frekar óheppilegum tíma þar sem minn er að fara að hlaupa 10 kílómetra á morgun í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég og Snorri verðum semsagt heima að horfa á sjónvarpið í kvöld eða eitthvað álíka. Það kalla ég nú að taka á honum stóra sínum á föstudagskvöldi. Bannað að drekka fyrir keppni, núna líður manni eins og alvöru sportistadjöfli. Annars lofa ég að birta tímann hér.. það setur nú pressu á strákinn.
15 ágúst 2002 :::
Það er gaman að brugga. Ekki aðeins er maður að spara peninga, heldur hefur maður afsökun til að vera sísötrandi og bjóðandi gestum í vínsmökkun. Við félagarnir í Hnakkvirkinu erum nýbúnir að tappa á 24 flöskur af eðalhvítvíni og erum einmitt að fara að fá fyrstu gestina í smökkun í kvöld.
Ekki fór hins vegar eins vel með byttuvínið (instant rósavín, 100 kr. líterinn) sem ég lagði í fyrir bróður minn í fyrradag. Það er brúnt og ógeðslegt og byrjaði ekki einu sinni að gerjast. Svo fór ég að kíkja á kassann utan af þessu og þar stóð að það væri best fyrir febrúar 2001. Þá varð maður dálítið súr (eins og lögunin er eflaust), því meirihlutinn af vinnunni var búinn og bara eftir svona vikubið í fyrsta drykkjarhæfa sopann.
En ég hvet alla til að fara að brugga. Ég vil nefnilega líka láta bjóða mér í smökkun. Sendið mér póst ef þið viljið fá tips um hvernig á að byrja. Spurning um að vera bara með byrjendakennslu í beinni hér á hvíta blogginu?
Er það í alvörunni satt að það hafi verið farið með forseta Lettlands í Kringluna, í tilefni af 15 ára afmæli hennar? Ef svo er, þá finnst mér það ekkert smá hvítt. Sé alveg fyrir mér íslenska ráðamenn hérna "this is the Kringla, the first real mall". Halda þeir kannski að það séu engar kringlur í Lettlandi, bara strípidansarar? A.m.k. veit ég ekki til þess að það hafi verið farið með frúna í skoðunarferð á Goldfinger (Magnús Ver hefði getað verið guide), svona til að halda þessu á svipuðu menningarplani. Held reyndar að lettneskar stelpur vilji síst láta sjálfan forsetann góma sig á strípistað.
Kannski finnst Dabba það mest spennandi við að koma til útlanda að fara á Burger King, og vildi sýna forsetanum Popeye's. Ég veit það ekki. Næsti forseti fær kannski að fara í Rúmfatalagerinn, sá verður heppinn.
Var ég ekki annars búinn að minnast á að ég ætla að reyna að byrja að blogga aftur? Það eru allir að þessu. Allir blogga og allir eru að lesa blogg hjá öllum. Mig langar til að vera frægur í hópi hörðustu netfíklanna og fá steikt email í hólfið. Svo talar fólk um það sem maður er að skrifa, maður verður rosalega umtalaður og umdeildur.
Veit ekki alveg hvernig þetta á eftir að þróast. Kannski á ég eftir að röfla um það sem gengur á frá degi til dags, og veita einhverju netfíklastóði, sem kannast við mig en hefur ekki heyrt frá mér í mörg ár, innsýn í tilveru mína. Kannski á ég eftir að fá útrás fyrir skoðanir mínar á hinu og þessu drasli sem kemur upp í hugann. Tónlistar-, kvikmynda- og bókarýni mun ef til vill skipa háan sess. Ég mun amk. ekki eyða miklu púðri í að benda fólki á slóðir sem eru hvort eð er búnar að ganga í tölvupósti milli allra skjádýra landsins sama dag. Og þó.
Mér áskotnuðust tveir nýlegir íslenskir diskar í dag.
Sá fyrri, Rímnamín, inniheldur slatta af nýjum íslenskum hip-hop lögum sem eru búin að hljóma ansi títt á einu alvörutónlistarstöðinni, Muzik, t.d. Drykkja, Rabies Canis (nýja Rottweiler-lagið) ofl. Fullt af góðum rímum og döbbi með öllum helstu nöfnunum. Sérstaklega gott lagið með Forgotten Lores!
Hinn síðari, Genghi Dahls með gleðisveitinni Rúnk er með því betra sem komið hefur út á árinu. Endalaus hressleiki þar á ferð, hljómsveit sem hoppar og skoppar um með neonlitar derhúfur og nær upp frábærri stemmingu. Skemmtilega súrir textar og vel gert gleðirokk í alla staði.